Sigur á Skaganum
Keflavík vann góðan sigur á Skagamönnum upp á Skaga í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag. Fyrir leikinn voru liðin í níunda og tíunda sæti deildarinnar, Keflavík með einu stigi meira en leikið einum leik fleiri. Með sigrinum færist Keflavík upp í áttunda sæti, stigi á eftir Fram sem vann Val.
Það var Finninn Dani Hatakka sem kom Keflavík yfir á 12. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Adam Ægir Pálsson tók hornið og boltinn barst til Kian Williams sem reyndi skot en boltinn endaði hjá Hatakka sem þakkaði pent fyrir sig og negldi honum í netið.
Í seinni hálfleik kom Kian Williams aftur við sögu þegar hann fékk boltann vinstra megin og lék laglega á leikmann ÍA, kom sér í færi og lét vaða í fjærhornið. Keflavík komið með tveggja marka forystu sem hélst til leiksloka.