Siguður Jónsson: „Við vorum rændir“
Fylkismenn komu Grindvíkingum niður á jörðina með 2-1 sigri á þeim gulu og ekki voðalega glöðu í Árbænum í gærkvöldi en Grindvíkingar lögðu ÍA í fyrsta leik 3-2. Jóhann Þórhallsson var á spariskónum og gerði mark Grindavíkur en hádramatískur endir leiksins skilaði Fylki 2-1 sigri. Leikmenn, þjálfarar og stuðningsfólk Grindavíkurliðsins höfðu ærna ástæðu til þess að setja út á störf dómaranna í leiknum en á köflum hallaði verulega á Grindavíkurliðið.
Jóhann Þórhallsson kom Grindvíkingum yfir á 33. mínútu þegar hann fékk sendingu frá Óskari Erni Haukssyni en þetta var þriðja mark Jóhanns í tveimur leikjum. Staðan var 0-1 í hálfleik Grindavík í vil eftir fremur bragðdaufan fyrri hálfleik.
Dómari leiksins, Erlendur Eiríksson, var í aðalhlutverki í gær og sendi Mounir Ahandour af leikvelli á 64. mínútu leiksins er hann gerði tilraun til þess að sparka í Fylkismann. Spjaldasýning Erlends var á þann veg að Grindvíkingar fengu fjögur gul spjöld og eitt rautt en Fylkismenn fengu eitt gult spjald.
Á 82. mínútu leiksins dæmdi Erlendur víti á Grindvíkinga og þetta hafði Óli Stefán Flóventsson um vítið að segja: „Ray var í boltanum og öskrar hendi á Fylkismanninn, þá hlustar dómarinn á Ray og dæmir af einhverjum ástæðum víti. Ég sá þetta atvik ekki en vitaskuld trúi ég Ray,“ sagði Óli Stefán um vítið.
Sævar Þór Gíslason jafnaði svo metin fyrir Fylki úr vítaspyrnunni, 1-1, en banabiti Grindvíkinga kom á 94. mínútu leiksins þegar Christian Christiansen skoraði sigurmarkið með glæsilegum skalla, 2-1.
„Ég er bara orðlaus, það sáu það allir sem voru á vellinum að við vorum rændir hérna,“ sagði Sigurður Jónsson, þjálfari Grindvíkinga, í leikslok. „Það var bara við ofurefli að etja því dómgæslan var okkur ekki í hag og þá er mjög vægt til orða tekið. Það þarf að fara yfir þennan leik og sjá hverslags bull var í gangi,“ sagði Sigurður og var honum heitt í hamsi. „Ég er mjög stoltur af mínum mönnum, þeir lögðu mikið í leikinn en við vorum bara að spila á móti 14 mönnum. Ef leikmenn standa sig illa þá eru þeir dottnir út úr liðinu en aðhald við frammistöðu dómara í leikjum þarf að vera betra og við getum ekki sætt okkur við þá dómgæslu sem við urðum vitni að í leiknum,“ sagði Sigurður sem vinnur nú að því að rífa upp Grindavíkurliðið fyrir nágrannaslaginn við Keflavík í næstu viku.
„Við jöfnum okkur á þessu, við rífum okkur upp fyrir Keflavíkurleikinn, það er mikill kraftur í okkur,“ sagði Sigurður að lokum.
Sitt sýnist hverjum en Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, hefur sagt í fjölmiðlum að frammistaða dómara leiksins hafi verið til fyrirmyndar. Grindvíkingar eru líkast til ósammála þeirri fullyrðingu.
Sjá myndasafn frá leiknum
[email protected]