Sigrum innilega fagnað og ósigrum tekið með reisn
- Nesarar fóru á kostum í Malmö
Föstudaginn 7. febrúar lagði stór hópur frá Nes, Íþróttafélagi fatlaðra á Suðurnesjum, af stað til Malmö í Svíþjóð til að keppa í sundi og boccia á Malmö Open mótinu. Hópurinn samanstóð af keppendum, þjálfurum og aðstandendum, alls 58 manns, sem komu frá Reykjanesbæ, Garði, Sandgerði og Vogum. Er þetta í annað sinn sem NES tekur þátt í þessu móti. Óhætt er að segja að ferðin hafi tekist vel í alla staði og var hópurinn félaginu og Suðurnesjum til sóma.
Dansað á sundlaugarbakkanum
Í sundinu vann Nes til 14 verðlauna en keppendur Nes í sundi voru 11 talsins á aldrinum 7 til 24 ára. Dagurinn hjá sundhópnum byrjaði snemma og var mætt í morgunmat kl. 06:00 og í sundhöllina kl. 07:15. Mikil stemning var í hópnum og tóku Nesarar stundum dansspor milli greina og skemmtu sér og öðrum um leið. Allir stóðu sig mjög vel og margir bættu tíma sína.
Sömu sögu var að segja frá boccia-keppninni þar sem Nes tefldi fram 19 keppendum, flestum í liðakeppni, þar sem spilað var í þriggja manna liðum. Alls keppti 41 lið í liðakeppninni og 27 einstaklingar í einstaklingskeppninni. Nesarar stóðu sig geysilega vel gegn mörgum sterkum keppinautum. Alls komust þrjú lið frá Nes í úrslitakeppnina, sem er flottur árangur. Það lið sem lengst komst féll út í 8-liða úrslitum. Að hætti Nes voru félagarnir vel studdir áfram, sigrum innilega fagnað og ósigrum tekið með reisn. Það voru síðan þreyttir en ánægðir Nesarar sem lögðu höfuðin á koddana um kvöldið.
Góðar veitingar og mikið verslað!
Samkvæmt Guðmundi Sigurðssyni formanni NES var afar vel var staðið að mótshaldinu, afslappað andrúmsloft og vinalegt. Á Malmö Open 2014 var 131 þátttökufélag frá 13 löndum og þar af 3 félög frá Íslandi. ÍFR og ÖSP frá Reykjavík ásamt Nes kepptu í sundi en Nes var síðan eina íslenska félagið sem keppti einnig í boccia. Gist var á Scandic Hotel á besta stað í miðbænum og eftir keppnishaldið var tíminn nýttur í að skoða miðbæinn, borða á góðum veitingastöðum og versla! Verslun H&M var nú beint á móti hótelinu. Mánudagurinn var notaður til að labba enn meira og var aðeins bætt á þyngdina í töskunum, lestin var síðan tekin yfir til Kaupmannahafnar og innritað sig í flugið heim. Það var vel tekið á móti þreyttum en sælum Nesurum í flugstöðinni og sannaði ferðin gildi sitt fyrir þörfinni að starfrækja öflugt íþróttafélag fyrir fatlaða á Suðurnesjum.
Allur hópurinn samankominn á mánudeginum.
Ástvaldur í miðbæ Malmö.
Unnur Hafstein í bringusundi.
Linda Björk að veita gullverðlaunum viðtöku fyrir sund.