Sigrar hjá Njarðvík og Grindavík: Keflavík lá heima
Ljóst hvaða lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar
Síðasta umferðin í Iceland Express deild karla fór fram í kvöld og voru það liðsmenn Þórs úr Þorlákshöfn sem féllu í 1. deild eftir að hafa þurft að lúta í lægra haldi gegn Íslands- og deildarmeisturum Njarðvíkur. Lokatölur leiksins voru 86-91 Njarðvík í vil en leikurinn fór fram í Þorlákshöfn. Það eru því Haukar og Þór sem falla þetta árið úr úrvalsdeild karla.
Keflvíkingar töpuðu heima gegn Snæfell 81-86 en þetta var fyrsti sigur Snæfellinga í Keflavík. Ósigur Keflavíkur þýðir að nú hafa Grindvíkingar náð af þeim 5. sætinu í deildinni eftir sigur sinn á KR í Vesturbænum í kvöld. Grindavík lagði KR 92-96.
Haukar töpuðu heima 72-92 gegn Hamri/Selfoss en H/S eru fastir í 8. sæti deildarinnar og mæta Njarðvíkingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Skallagrímur tapaði heima gegn ÍR 87-102 og því eru þeir í 4. sæti og mæta Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KR mætir ÍR og það verða Snæfell og Keflavík sem mætast í fyrstu umferðinni.
Liðin sem mætast í úrslitakeppninni í röð:
1.-8. sæti
Njarðvík-Hamar/Selfoss
2.-7. sæti
KR-ÍR
3.-6. sæti
Snæfell-Keflavík
4.-5. sæti
Skallagrímur-Grindavík
Úrslitakeppnin hefst 15. mars