Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigrar hjá Keflavík og Njarðvík
Sunnudagur 29. október 2006 kl. 23:00

Sigrar hjá Keflavík og Njarðvík

Keflvíkingar unnu góðan sigur á Haukum, 96-80, í Iceland-Express-deildinni í körfuknattleik í kvöld. Á sama tíma unnu grannar þeirra, Íslandsmeistarar UMFN, einnig öruggan sigur á Tindastóli á útivelli, 82-91. Njarðvíkingar verma enn toppsæti deildarinnar eftir fjóra sigurleiki, en Keflvíkingar hafa unnið tvo af fjórum leikjum. Þeir töpuðu tveimur síðustu leikjunum fyrir sigurinn í kvöld.

Leikurinn, sem fór fram í Keflavík, var jafn til að byrja með þar sem Haukar höfðu í fullu tré við heimamenn. Þeir höfðu forystuna eftir fyrsta leikhluta, 27-32 .þar sem varnarleikur Keflvíkinga var ekki nógu sterkur, sérstakleg fengu Haukar að athafna sig upp við körfuna og fengu mörg auðveld skot.

Í upphafi annars leikhluta kom Sverrir Þór Sverrisson inn af bekknum og gjörbreytti varnarleik sinna manna sem oft áður. Haukarnir juku samt forystuna upp í 11 stig, 30-41, áður en Keflvíkingar hófu að saxa jafnt og þétt á forskotið. Daninn Thomas Soltau fór fyrir þeim í sóknareiknum og Sverrir Þór var eitilharður í vörninni.

Hvorki gekk né rak hjá Haukum á þessum kafla og heimamenn komust í forystu, rétt fyrir hálfleik, sem þeir héldu allan leikinn. Arnar Freyr Jónsson kom sérlega sterkur inn og skoraði 8 stig á síðustu 2 mín hálfleiksins og breytti stöðunni í 49-45.

Keflvíkingar hófu sinni hálfleikinn með stífum varnarleik sem Haukar áttu engin svör við og fengu þeir tvisvar dæmdar á sig 24 sek í upphafi 3. leikhluta. Góð frammistaða Kevin Smith og Sigurðar Einarssonar hélt þeim þó inni í leiknum alllengi eða þangað til að Keflvíkingar settu í lás í stöðunni 56-55. Þeir skoruðu næstu 14 stig og gerðu í raun útum leikinn. Þétt vörnin gaf mikið af auðveldum körfum og átti hinn 17 ára Þröstur Leó Jóhannsson tilþrif leiksins þegar hann tróð með miklum látum úr skyndisókn eftir undirbúning Sverris Þórs.

Staðan fyrir síðasta leikhluta var 70-55 og gerðu Haukar sig aldrei líklega til að ógna sigrinum. Þeir Sigurður og Smith drógu vagninn fyrir gestina sem máttu sín lítils gegn sterku Keflavíkurliði sem vann, eins og fyrr sagði, 96-80 og virðist hafa fundið taktinn eftir vonbrigði síðustu tveggja leikja.

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, sagði í samtali við Víkurfréttir í leikslok að hans menn ættu enn nokkuð inni. “Við vorum ekkert sérstakir í dag og það vantar enn ýmislegt uppá hjá okkur, en við verðum betri. Það eru tveir leikir eftir í deildinni í næstu viku og við verðum að ná góðum úrslitum í þeim til að verða tilbúnir í Evrópuleikinn eftir það.”

Sigurður sagði varnarleikinn hafa skipt sköpum í leiknum. “Haukarnir spiluðu vel í fyrsta leikhluta og gerðu yfir 30 stig þar, en restina af leiknum skoruðu þeir bara 50 stig og þar vorum við að spila mjög góða vörn.” Aðspurður sagði hann Sverri Þór hafa leitt vörnina vel sem oft áður, en auk þess hafi hann nýtt breiddina til að spila á mörgum mönnum og alltaf haft ferska leikmenn á vellinum.

 

Stigahæstur Keflvíkinga var Daninn Soltau með 26 stig, Tim Ellis var með 21, Arnar Freyr með 15 og Gunnar Einarsson með 11. Sverrir Þór var einungis með eitt stig, en hins vegar með 6 stoðsendingar og jafn marga stolna bolta.

 

Hjá Haukum var Kevin Smith með 26 stig, Sigurður Einarsson með 18 og Morten Szmiedowich með 15.

 

VF-mynd/Þorgils- Fleiri myndir úr leiknum í myndasafni VF

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024