Sigmundur Már dómari dæmir í lokakeppni EuroBasket 2015
Njarðvíkingurinn Sigmundur Már Herbertsson, FIBA Europe dómari KKÍ, hefur verið tilnefndur af evrópska körfuknattleikssambandinu til að dæma á lokamóti EM, EuroBasket 2015, nú í haust. Þessi útnefning er mikil viðurkenning fyrir íslenskan körfuknattleik og íslenska dómara og er því nú enn einn nýr kaflinn skrifaður í körfuknattleikssögu Íslands.
Þetta er í fyrsta sinn sem dómari frá Íslandi hlotnast sá heiður að dæma á lokamóti á vegum FIBA hjá A-landsliðum og er útnefningin til marks um hversu vel Sigmundur Már hefur staðið sig á undanförnum árum í dómarastörfum fyrir FIBA Europe. Ekki er sjálfsagt að þátttökuþjóðir eigi hæfa dómara til að senda og eru dæmi um að þjóðir sem verða á EuroBasket nú í haust hafi ekki fengið dómara sem fulltrúa sinnar þjóðar á komandi lokamóti.
Ekki er komið á hreint hvar Sigmundur dæmir en ljóst er að hann verður ekki í sama riðli og Ísland í Berlín. Hann mun því dæma annaðhvort í Frakklandi, Eistlandi eða Króatíu.