Siggi Raggi: Guðni kenndi mér að þjálfa
Fyrrum landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fer fögrum orðum um Keflvíkinginn Guðna Kjartansson sem var aðstoðarmaður Sigurðar um áraskeið hjá landsliðinu. Sigurður skrifar áhugaverðan pistil á vefsíðu sinni Siggiraggi.is þar sem hann lofar störf Guðna í hástert og þakkar honum samstarfið.
Í pistlinum talar Sigurður um það að Guðni hafi kennt honum að þjálfa. Hann segir einnig að Guðni hafi litið á þjálfunarstarfið sem köllun og kennslu og hafi verið langt á undan sinni samtíð í þjálfun. Guðni hóf störf hjá KSÍ árið 1977 þá sem aðstoðarþjálfari landsliðsþjálfara.
„Guðni hefur starfað nánast sleitulaust öll árin síðan við þjálfun landsliða KSÍ, hann hefur þjálfað A, U-21 og U-19 ára landslið Íslands með frábærum árangri ásamt því að vera ítrekað aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Ég fékk að njóta starfskrafta Guðna svo síðustu árin þar sem hann var aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna 2006-2013. Enginn þjálfari hefur stýrt landsliðunum í fleiri leikjum en þeir eru sennilega orðnir vel fleiri en 300 talsins. Árangur Guðna með A-landslið karla er einn sá besti sem hefur náðst. Árangur Guðna sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna er sá besti sem hefur nokkurn tímann náðst,“ skrifar Sigurður í pistli sínum.
Hann heldur svo áfram að lofa Guðna og segir hann hafa staðið vel við bakið á sér í starfi landsliðsþjálfara. „Traustari mann get ég ekki fundið og mun sennilega aldrei finna. Hans hjálp var mér algjörlega ómetanleg og hann á afskaplega stóran og oft á tíðum vanmetinn þátt í árangri kvennalandsliðsins. Það mun enginn skilja það til fullnustu hvað hann hefur gefið kvennalandsliðinu nema ég. En þannig er hann, hann hefur aldrei sóst eftir viðurkenningu á sínum störfum. Hann var kennari og köllun hans var að kenna fótbolta,“ segir Sigurður í pistli sínum sem hægt er að lesa í heild sinni hér.