Siggi Jóns til Keflavíkur?
Sigurður Jónsson, fyrrverandi leikmaður Skagamanna er meðal þriggja kandídata sem þjálfari Keflvíkinga í knattspyrnu fyrir komandi keppnistímabil. Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnuráðs Keflavíkur, staðfesti þetta í samtali við VF.Sigurður á að baki langan knattspyrnuferil hjá ÍA en lék einnig í mörg ár í Bretlandi, fyrst hjá Sheffield Wednesday því næst Arsenal en þaðan hélt hann heim á ný. Leið hans lá aftur út en næsta lið Sigurðar var Örebro í Svíþjóð en þaðan var hann seldur til Dundee í Skotlandi. Síðustu ár hefur hann leikið hér heima.„Sigurður er einn tveggja, þriggja sem koma til greina sem næsti þjálfari Keflavíkur“, sagði Rúnar Arnarson. Rúnar sagði að þetta væru allt Íslendingar en fyrir lægi einnig spennandi kostur erlendis frá og samkvæmt heimildm VF er un Englending að ræða. Þá væri heldur ekki útilokað að Velimir Seric, unglingaþjálfari Keflavíkur til margra ára taki við liðinu. Hann mun a.m.k. hefja tímabilið og stjórna æfingum til að byrja með. Fyrsta æfingin var í Reykjaneshöllinni í gærkvöldi.Rúnar sagði lítið hafa gerst í leikmannamálum. Nokkrir leikmenn væru búnir að vera að reyna fyrir sér hjá liðum í Englandi en enn væri engin tíðindi þaðan. Þetta eru þeir Gunnleifur Gunnleifsson, Jóhann Benediktsson, Guðmundur Steinarsson, Haraldur Guðmundsson og Þórarinn Kristjánsson sem er sá eini sem enn er úti.Kristján Brooks og Jakob Jónharðsson hafa gert samninga við Breiðablik og Val. Peningastaða deildarinnar er ekki góð og sagði Rúnar að beita þyrfi aðhaldsaðgerðum. „Við stöndum ekki vel og þurfum að skera niður. Það er ekki hægt að reka þetta með tapi ár eftir ár“.