Síðasti leikur Guðmundar með Keflavík?
Ekki er ólíklegt að knattspyrnuferill Keflvíkingsins Guðmundar Steinarssonar hafi endað í leiknum við Breiðablik í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í dag. Guðmundur meiddist á hné í leiknum eftir samsksipti við einn leikmann Breiðabliks og þurfti að fara af leikvelli.
Atvikið átti sér stað á 45. mínútu fyrri hálfleiks. Dómari leiksins var skammt frá atvikinu en dæmdi ekkert á að því er virtist nokkuð gróft brot. Alla vega nógu slæmt til þess að hnéð á Guðmundi stokkbólgnaði og hann þurfti að fara af leikvelli. Úr herbúðum liðsins heyrðist í leikhléi að ekki væru miklar líkur á því að Guðmundur geti tekið þátt í síðasta leiknum næsta laugardag þar sem meiðslin voru það slæm.
Guðmundur sem er markahæsti og leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi hefur sagt að þetta yrði hans síðasta ár með Keflavík. Hann hefur verið mjög mikilvægur á þessari leiktíð og skorað mörg mörk. Það skýrist á næstu dögum hvort það verði veruleikinn eða ekki.
Guðmundur var borinn af leikvelli rétt fyrir leikhlé og kom ekki inn á aftur.