Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Síðasti kúrekinn í dalnum
Fimmtudagur 28. febrúar 2008 kl. 10:43

Síðasti kúrekinn í dalnum

Njarðvíkingur á toppi N1 deildarinnar

 

Vandfundnir eru þeir Suðurnesjamenn sem enn láta ljós sitt skína í handboltanum hér heima. Félagarnir Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson eru eitt reyndasta dómarapar landsins í handboltanum og nú hefur okkur tekist að grafa upp síðasta kúrekann í dalnum. Freyr Brynjarsson er Njarðvíkingur í húð og hár en er margfaldur meistari í handbolta með bæði Val og Haukum, einum af stórveldum landsins í hanbolta. Freyr er hornamaður hjá Haukum í dag með Hafnarfjarðarliðinu á toppi N1 deildarinnar og stefnir nú hraðbyri á annan Íslandsmeistaratitil með Haukum. Freyr fluttist ungur í Kópavog þar sem handboltinn varð fyrir valinu.

 

,,Ég er nú duglegur að láta alla vita að ég sé Njarðvíkingur, það er ekkert annað lið sem kemur til greina í körfunni þar sem pabbi var í Njarðvík á sínum tíma og var leikmaður í fyrsta Íslandsmeistaraliðinu,” sagði Freyr en faðir hans er Brynjar Sigmundsson. Sjálfur er Freyr umsjónarkennari við Akurskóla í Innri-Njarðvík og búsettur ekki langt frá skólanum. Verandi búsettur í einu af höfuðvígi körfuboltans á Íslandi þarf hann þá ekki að sætta sig við smá orrahríð í vinnunni og heimavið sem handboltamaður?

 

,,Þar sem ég er Njarðvíkingur í körfunni þá kemst ég langleiðina með að réttlæta dvölina mína hérna, svo þegar maður er á toppnum eins og Haukar í handboltanum þá þýðir lítið að vera að skjóta á mann,” sagði Freyr hress í bragði. ,,Ef ég hefði ekki flust héðan svo ungur að árum til Kópavogs þá hefði ég örugglega endað í körfunni,” sagði Freyr sem árið 1997 ákvað að velja handboltann og sér ekki eftir því. ,,Ég varð Íslandsmeistari og bikarmeistari með Val árið 1998 og Íslandsmeistari með Haukum 2005 og deildarbikarmeistari 2006. Ég hef heyrt því fleygt að körfuboltinn sé íþrótt án snertinga og að handboltinn sé ruddaíþrótt en þetta eru samt ekki ósvipaðar greinar þó að í körfunni séu mun skýrari reglur. Handboltinn er samt karlmannsíþrótt,” sagði Freyr rogginn enda má hann vera það, á toppnum! Á sínum tíma var úrslitakeppnin í handboltanum lögð af og segist Freyr sakna hennar enda skemmti hann sér ávallt vel í úrslitakeppninni í körfunni við að fylgjast með sínum mönnum í Njarðvík.

 

,,Í handboltanum í dag er fjórföld umferð og við erum að hefja þriðju umferðina í deildinni, stigahæsta liðið eftir deildarkeppni verður Íslandsmeistari og því skiptir hver deildarleikur miklu meira máli. Í úrslitakeppninni mætir fólk betur á leiki og ég myndi vilja sjá hana aftur í handboltanum og hlakka t.d. mikið til að mæta í úrslitakeppnina og horfa á Njarðvík spila,” sagði Freyr en grænir hafa oft áður verið í betri stöðu í deildarkeppninni þegar hingað er komið á tímabilinu. Er handboltakappinn með einhver ráð fyrir sína menn til þess að komast á toppinn?

 

,,Ég ætla nú ekki að skipta mér af þjálfun liðsins því Njarðvíkingar geta unnið öll lið en þeir þurfa stöðugleika og eru með virkilega góða leikmenn. Ég hef ekki miklar áhyggjur af mínum mönnum í Njarðvík því þeir eru með mann í brúnni sem veit hvað til þarf. Teitur er sigurvegari og góður til þess að miðla sinni þekkingu áfram til leikmanna. Njarðvíkingar koma sterkir inn í úrslitakeppnina og trúi ekki öðru en að þeir séu hungraðir í ár,” sagði Freyr sem gert hefur 61 mark í deildinni með Haukum og verður með þeim í eldlínunni laugardaginn 8. mars næstkomandi þegar Haukar mæta Stjörnunni í N1 deild karla. Handboltinn er því ekki dauður úr öllum æðum á Suðurnesjum og það kristallast í Frey og dómaraparinu Gísla og Hafsteini.

 

Texti: [email protected]

Mynd: [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024