Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Síðasti grannaslagur í 1. deild fyrir 24 árum
  • Síðasti grannaslagur í 1. deild fyrir 24 árum
Föstudagur 27. maí 2016 kl. 19:00

Síðasti grannaslagur í 1. deild fyrir 24 árum

Keflvíkingar unnu Grindavík síðast 4-1 árið 1992 í næst efstu deild

Síðast mættust Grindvíkingar og Keflvíkingar í næst efstu deild í knattspyrnu karla árið 1992. Keflvíkingar höfðu þá 4-1 sigur. Kjartan Einarsson og Ingvar Áskell Guðmundsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Keflavík í leiknum. Þorsteinn Bjarnason skoraði mark Grindvíkinga úr víti. Keflvíkingar fóru upp í efstu deild það árið en Grindvíkingar voru í þriðja sæti 11 stigum á eftir grönnum sínum.

Liðin mætast nú 24 árum síðar á Nettóvellinum klukkan 14:00 á laugardag. Grindvíkingar eru ósigraðir á toppnum eftir þrjár umferðir á meðan Keflvíkingar hafa gert tvö jafntefli og eru fjórum stigum á eftir nágrönnum sínum í fjórða sæti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Yrði gaman að enda sigurgöngu Grindvíkinga

Sigurbergur Elísson hefur farið vel af stað með Keflvíkingum í sumar en hann er að stíga upp úr erfiðum meiðslum. Hann fór í aðgerð í febrúar og byrjaði að spila fótbolta aðeins tveimur vikum fyrir mót. „Ég er í þokklegu standi. Mér líður hrikalega vel í líkamanum,“ segir Sigurbergur sem skorað hefur tvö mörk og einnig lagt upp mörk fyrir félaga sína.

„Það er alltaf gaman að mæta Grindavík. Maður er búinn að sakna þess smá. Það yrði skemmtilegra ef það væri í Pepsi-deildinni en 1. deildin er gríðarlega sterk. Þessir leikir verða alltaf hörku skemmtun,“ segir Sigurbergur um grannaslaginn.
„Þeir eru búnir að byrja mjög vel og við höfum byrjað þokkalega, höfum ekki tapað leik og spilað á tveimur erfiðum útivöllum. Það yrði hrikalega gaman að enda þeirra sigurgöngu í deildinni á laugardaginn,“ bætir hann við.

Mikilvægur leikur upp á framhaldið

Eftir dvöl á Englandi og í Vestmannaeyjum er miðjumaðurinn Gunnar Þorsteinsson kominn á heimaslóðir í Grindavík. Gunnar segist gríðarlega ánægður með að hafa tekið þá ákvörðun að koma aftur heim. „Klisjan á vel við hérna. Maður þarf stundum að taka skref aftur á bak  til þess að taka tvö skref fram. Mig langaði að taka þátt í einhverju verkefni sem skilur eitthvað eftir sig. Það er verkefnið sem við erum í núna, við stefnum leynt og ljóst að því að fara upp,“ segir Gunnar.

Gunnar hafði aðeins leikið tvo deildarleiki fyrir Grindavík áður en hann fór 17 ára gamall til Englands. Hann segist ánægður að vera kominn heim og vill axla ábyrgð í liðinu.
„Maður er í þessu fyrir svona leiki og þessi augnablik. Ég reikna með að Keflvíkingarnir komi dýrvitlausir til leiks enda hefur byrjun þeirra valdið vonbrigðum. Það eru þó bara búnar þrjár umferðir þannig að menn mega ekki alveg missa sig. Það hefur enginn unnið neitt mót í maí. Þessi leikur er mjög mikilvægur upp á framhaldið að gera. Þeir ætla örugglega að nota hann til þess að „kickstarta“ tímabilinu hjá sér á meðan við ætlum að halda áfram því góða róli sem við erum á.“