Síðasta umferð fyrir jól hefst í kvöld
Tíunda og síðasta umferðin í Iceland Express deild karla í körfubolta hefst í kvöld með fjórum leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Nóg verður um að vera á Suðurnesjum þar sem Njarðvík og Keflavík eiga bæði heimaleiki.
Topplið Keflavíkur fær Skallagrím í heimsókn en Borgnesingar hafa að undanförnu verið að ranka við sér af værum blundi. Keflavík hefur fullt hús stiga á toppi deildarinnar með 18 stig en Skallagrímur hefur 10 stig í 4. sæti deildarinnar.
Njarðvíkingar fá Fjölni í heimsókn í Ljónagryfjuna en Njarðvíkingar hafa 10 stig rétt eins og Skallagrímur en Fjölnir hefur 6 stig í 9. sæti deildarinnar.
Þá mætast KR og Tindastóll í Vesturbænum og ÍR fær Snæfell í heimsókn.
Umferðinni lýkur svo annað kvöld með viðureignum Þórs og Grindavíkur á Akureyri og Stjörnunnar og Hamars í Ásgarði í Garðabæ.
VF-Mynd/ Sigurður Ingimundarson og félagar í Keflavík geta styrkt stöðu sína á toppi deildarinnar þegar Ken Webb og hans menn í Skallagrím mæta í Sláturhúsið.