Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

SHIMANO Reyjanesmótið í götuhjólreiðum
Föstudagur 18. apríl 2014 kl. 08:00

SHIMANO Reyjanesmótið í götuhjólreiðum

– Reykjanesmótið í hjólreiðum fer fram sunnudaginn 27. apríl

Reykjanesmótið í hjólreiðum fer fram sunnudaginn 27. apríl kl. 10:00. Þetta er sjötta árið í röð sem mótið er haldið. Mótið markar alltaf upphaf keppnistímabilsins á árinu, en vegna þess hve snemma árs mótið er haldið er oft allra veðra von.

Haraldur Hreggviðsson og Ingi Þór Einarsson voru frumkvöðlar þess að koma þessu móti á, og sáu um það fyrstu þrjú árin. Þríþrautardeild UMFN hefur nú tekið að sér móthaldið með Harald sem mótstjóra, en honum hefur tekist afar vel að gera mótið að einu skemmtilegasta hjólreiðamóti ársins. Með frábærri mótsumgjörð, fjölda verðlauna, veitingum og fjölmörgum veglegum útdráttarverðlaunum. Sandgerðisbær hefur verið afar liðlegur í að skaffa aðstöðu fyrir mótshaldara og keppendur. Verðlaunaafhending fer fram í íþróttahúsinu og einnig gefst keppendum færi á að nota heitu pottana og búningsaðstöðuna þeim að kostnaðarlausu.

Öll skráning í mótið fer fram á hjolamot.is, en skráningarfrestur er til 24. apríl. Mæting og móttaka keppnisgagna er við Sundlaugina í Sandgerði og ræst verður frá Hvalsnesvegi.

Keppt verður í tveimur flokkum: Keppnisflokki sem hjólar 64km þar sem snúið er við hjá Reykjanesvirkjun og Byrjendaflokki sem hjólar 32km þar sem snúið er við  á gatnamótum Ósabotna og Hafnarvegs.

Vegleg útdráttarverðlaun eru á mótinu, en ýmis fyrirtæki hafa lagt okkur lið í gegnum árin í þeim málum og erum við þeim afar þakklát. Veitingar og verðlaunaafhending verða síðan að móti loknu kl. 12:45.

Þríþrautardeild UMFN vill hvetja fólk til að koma og sjá alla bestu hjólreiðmenn landsins etja kappi á þessum degi, en vill jafnframt minna fólk á að taka tillit til hjólreiðakappanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024