Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sextán ára í atvinnumennsku
Laugardagur 23. júní 2018 kl. 06:00

Sextán ára í atvinnumennsku

- mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér

Við höfum nýlega séð fréttir af ungum Keflvískum fótboltastrákum sem eru að standa sig vel og gera góða hluti. Einn þeirra er Stefán Alexander Ljubičič, sem fór aðeins 16 ára í atvinnumennsku til Brighton á Englandi. Lífið hjá Stefáni snýst allt um fótbolta en hann er staddur hér á landi í stuttu fríi.

Nú ert þú búinn að vera í Brighton síðan 2016, hvernig er búið að ganga?
„Það er búið að ganga ljómandi vel, við unnum tvöfalt þetta ár og erum á réttri leið, þetta er alveg geggjað.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig kom það til að þú fórst svona ungur út í atvinnumennsku?
„Ég fór út, fékk reynslu og sá að það voru margir strákar að fara út þannig ég tók sénsinn. Ég fór og leist ógeðslega vel á þetta og fékk tilboð frá Brighton eftir fyrstu reynsluna sem var erfitt að hafna og þetta er bara búið að vera það besta sem ég hef gert.“

Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta?
„Ég byrjaði bara þegar maður gat byrjað, í 8. flokk í TM-höllinni.“

Var þetta alltaf markmiðið eða ætlaðir þú t.d. að fara í meistaraflokk á Íslandi?
„Já, áður en ég fór út fékk ég að spila fyrsta leikinn minn í Pepsi-deildinni áður en Keflavík féll. En alltaf þegar ég var lítill sá ég strákana keppa í sjónvarpinu og vildi komast þangað. Núna er ég á réttri leið og held áfram.“

Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér í Brighton?
„Það er eiginlega alltaf það sama, á hverjum einasta degi vakna ég klukkan átta eða níu, fer í sturtu, fer á æfingu og það er eiginlega hefbundinn dagur í Brighton.“

Hvar sérðu sjálfan þig eftir fimm ár?
„Eftir fimm ár vonast ég til að vera í A-landsliðinu, kannski að fara á HM eftir fjögur ár ef við komumst annars bara í deild þeirra bestu.“

Ísland er auðvitað að fara að keppa á HM í sumar, heldur þú að þú verðir í liðinu næst eftir fjögur ár?
„Já ég hef mikla trú á því, ég var að komast núna í U21 landsliðið og er ennþá átján ára. Ég hef mikla trú á mér sjálfum og geri það besta sem ég get.“

Ef þú mættir velja, með hvaða liði myndir þú helst vilja að spila fyrir í atvinnumennsku?
„Ég held nú með Manchester United þannig draumurinn er að spila þar en ef það er atvinnumennska þá hvaða lið sem er.“

Hefur þú ráð fyrir unga fótboltastráka og stelpur sem vilja komast í atvinnumennsku?
„Já, fara á aukaæfingar og hugsa vel um sjálfan sig það er það eina sem þú getur gert. Svo er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér, hlusta á þjálfarann og gera allt sem þú mögulega getur.“