Sex Íslandsmeistaratitlar
Njarðvíkingar sigursælir í fangbragðaíþróttum
Um helgina fór fram Íslandsmeistaramótið í keltneskum glímubrögðum. Keppt var í Backhold í húsakynnum Glímufélags Reykjavíkur og Reykjavík MMA.
Heiðrún Fjóla Pálsdóttir og Ingólfur Rögnvaldsson byrjuðu árið með stæl og sigruðu alla flokka sem þau kepptu í. Heiðrún varð tvöfaldur Íslandsmeistari og Ingólfur þrefaldur. Guðmundur Stefán Gunnarsson sigraði í þungavigt og lagði Evrópumeistarann og Glímukóng Íslands í svakalegri rimmu risanna. Úrslitaviðureign þeirra tók yfir fimmtán mínútur.
Allir keppendur Njarðvíkur unnu til verðlauna. Jóel Helgi Reynisson varð annar í sínum flokki, Jóhannes Pálsson, bróðir Heiðrúnar, varð annar í sínum flokki og Brynjólfur Örn Rúnarsson, sem er nýgenginn til liðs við Njarðvíkinga, varð þriðji í opnum flokki karla.
Heiðrún tvöfaldur bikarmeistari í glímu
Á lagardaginn hélt Glímusamband Íslands bikarmeistaramót í glímu. Heiðrún Fjóla var eini keppandi Njarðvíkur að þessu sinni. Hún hélt áfram þaðan sem frá var horfið frá deginum áður, glímdi óaðfinnanlega og sigraði +70 kg flokk kvenna. Þar á eftir keppti hún í opnum flokki kvenna. Þar lenti Heiðrún í smá vandræðum með hina geysisterku Mörtu Lovísu Kjartansdóttur en sýndi styrk sinn í seinni umferðinni og lagði alla andstæðinga sína.