Sex bikarmeistaratitlar til Suðurnesja
Um helgina var leikið til bikarúrslita í níu yngri flokkum og fóru leikirnir fram í Ásgarði í Garðabæ. Sex titlar fóru til Suðurnesja að þessu sinni sem er glæsilegur árangur.
Njarðvík varð bikarmeistari í unglingaflokki karla eftir öruggan sigur gegn Þór Þorlákshöfn, 87-69. Stigahæstur í liði Njarðvíkur var Ágúst Orrason með 24 stig og 17 fráköst en næstu menn voru Elvar Már Friðriksson með 21 stig og 12 stoðsendingar og Ólafur Helgi Jónsson með 18 stig og 12 fráköst.
Keflvíkingar urðu bikarmeistarar í stúlknaflokki eftir stóran og öruggan 81-45 sigur gegn Haukum. Bríet Sif Hinriksdóttir, besti maður leiksins, gerði 18 stig, tók 11 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Næst henni var Sara Rún Hinriksdóttir með 17 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar og Ingunn Embla Kristínardóttir gerði 16 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Njarðvíkingar urðu bikarmeistarar í 10. flokki karla eftir hörku slag gegn Breiðablik í bikarúrslitum. Sterk rispa Njarðvíkinga í fjórða leikhluta skóp sigurinn og lokatölur 51-44 Njarðvík í vil. Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson var valinn maður leiksins með 14 stig og 16 fráköst og Ragnar Helgi Friðriksson bætti við 12 stigum, 6 stoðsendingum, 3 fráköstum og 4 stolnum boltum.
Keflvíkingar tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í 9. flokki kvenna eftir öruggan sigur á stöllum sínum úr Njarðvík. Lokatölur urðu 59-16 þar sem Thelma Dís Ágústsdóttir var valin besti maður leiksins með 19 stig og 13 fráköst.
Keflavík varð einnig bikarmeistari í unglingaflokki kvenna eftir nauman sigur á Njarðvík, 63-62 í æsispennandi leik. Stigahæst hjá Keflavík var Ingunn Embla Kristínardóttir með 18 stig og Sara Rún Hinriksdóttir kom næst með 17 stig. Hjá Njarðvík var Guðlaug Björt Júlíusdóttir atkvæðamest með 23 stig.
Grindvíkingar nældu sér í einn bikarmeistaratitil en 11. flokkur karla varð bikarmeistari eftir sigur gegn Njarðvík, 77-66. Maður leiksins var Jón Axel Guðmundsson en hann átti frábæran leik og skoraði 32 stig. Ragnar Helgi Friðriksson var atkvæðamestur hjá Njarðvík með 25 stig.
Víkurfréttir óskar Suðurnesjaliðunum til hamingju með þennan frábæra árangur.
Njarðvík bikarmeistari í unglingaflokki karla.
Bikarmeistarar Keflavíkur í 9. flokki stúlkna.
Bikarmeistarar Njarðvíkur í 10. flokki pilta.
Bikarmeistarar Keflavíkur í stúlknaflokki.
Bikarmeistarar Grindavíkur í 11. flokki pilta.
Myndir eru fengnar með góðfúslegu leyfi frá mekka körfuboltans á Ísland, www.karfan.is