Sex ára dama púttar vel í stígvélum
Metþátttaka hefur verið síðustu tvö mánudagskvöldin á púttmótaröð Golfklúbbs Suðurnesja í HF í Keflavík. Á fimmta tug áhugasamra kylfinga mættu sl. mánudag og sama var uppi á teningnum vikuna áður.
Þór Ríkharðsson púttaði best allra og sló við kempum á borð við Örn Ævar Hjartarson og Davíð Jónsson og lék 36 holurnar á 55 höggum. Keppt er í tveimur flokkum fullorðinna og í barna- og unglingaflokki.
Á annarri myndinni má sjá yngsta keppandann í mótinu, Lovísu Davíðsdóttur, sex ára. Hún stóð sig með prýði og er efnilegur kylfingur. Hún mætti í stígvélunum eins og starfsmenn í fiskvinnslu gerðu í þessum sal í gamla daga.