Setti tvö Íslandsmet og stefnir á Ólympíuleikana
Ekkert stöðvar kraftakonuna Kötlu Ketilsdóttur
Ekki er langt síðan Keflvíkingurinn Katla Ketilsdóttir setti tvö Íslandsmet í ólympískum lyftingum á Heimsmeistaramóti unglinga í Bangkok í Thailandi, en Katla er einungis 16 ára gömul.
Þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af Kötlu var hún á leið um Reykjanesbraut, en samhliða íþróttunum stundar hún nám við Fjölbrautaskóla Garðabæjar þar sem hún lærir leiklist. „Þetta gekk bara nokkuð vel. Ég reyndi líka við Norðurlandamet, en það fór ekki upp. Það met er eldgamalt, en ég reyni við það aftur á næsta móti sem verður í Kosovo.“
Fyrir mótið voru stífar æfingar hjá Kötlu og mataræðið tekið í gegn. Katla æfir CrossFit hjá CrossFit Suðurnes en hún æfði einnig fimleika í mörg ár og segir það hjálpa henni helling. „Það er örugglega besti grunnur sem þú gætir haft í CrossFit. Markmið mitt í því er að komast á Heimsleikana og í ólympísku lyftingunum er það vonandi bara Ólympíuleikarnir einn daginn.“