Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sérfræðingar spá Grindvíkingum 9. sæti
Föstudagur 22. apríl 2011 kl. 10:01

Sérfræðingar spá Grindvíkingum 9. sæti

Sérfræðingar fótbolta.net spá Grindvíkingum 9. sæti Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í sumar. Grindvíkingar voru aðeins einu stigi frá falli síðasta sumar en Ólafur Örn Bjarnason tók við liðinu á miðju tímabili af Lúkas Kostic eftir brösugt gengi framan af. Liðið hefur misst máttarstólpa úr liðinu líkt og Gilles Mbang Ondo og Jósef Kristinn Jósefsson sem héldu erlendis.

Í grein fótbolta.net segir m.a um styrkleika liðsins: „Eru með skapandi menn fram á við, sérstaklega í Scott Ramsey og Paul McShane. Þeir eru góðir í að halda bolta innan liðsins og eru með mikið af stuttum sendingum. Þeir eru virkilega þéttir á miðjunni þar sem þeir spila með þrjá menn. Það er erfitt að spila sig í gegnum þá. Varnarlínan verður mun öflugri en í fyrra þar sem Ólafur Örn Bjarnason spilar allt tímabilið. Ray Anthony Jónsson ætti að vera í fínu formi eftir dvölina í Filippseyjum.“

Reynir Leósson sem er sérstakur álitsgjafi síðunnar fótbolti.net segir helstu veikleika Grindavíkurliðsins einkum vera að þeir séu full einhæfir og fyrirsjáanlegir í spili sínu. Einnig segir Reynir liðið skorta hraða fram á við og hann efast um styrkleika þeirra erlendu leikmanna sem Grindvíkingar hefa fengið fyrir komandi tímabil. Lykilmenn liðsins telur hann svo vera, þjálfarann, Ólaf Örn Bjarnason, Scott Ramsey og Paul McShane.

Dagbjartur Einarsson útgerðarmaður og einn helsti stuðningsmaður liðsins segir liðið þó vera nógu gott til að ná sjötta eða sjöunda sæti. „Auðvitað finnst mér þetta vera dapurleg spá en ég er heldur ekki með neinar stórar væntingar til liðsins,“ sagði Dagbjartur í spjalli við fótbolta.net en þó telur hann liðið geta komið á óvart. „Það er það skemmtilega við fótboltann, það eru óvænt úrslit annað slagið, annars væri ekkert gaman af þessu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024