Sendiherra ESB á Íslandi í heimsókn á Ásbrú
Sendiherra Evrópusambandins á Íslandi, Timo Summa, var í heimsókn á Ásbrú í dag og kynnti sér þróunarfélagið KADECO og menntastofnunina Keili. Evrópuvaktin og Summa stóðu fyrir hádegisverðarfundi í Keili og þar fræddi Summa nema og starfsmenn Keilis um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Summa fékk fjölmargar spurningar úr sal um stöðu mála í samningaferlinu milli Íslands og ESB og einnig spurningar um stöðu ESB vegna erfiðrar efnahagsstöðu sem mörg aðildarríki ESB glíma við um þessar mundir.
„Það er ljóst að hér horfa menn til framtíðar. Frumkvöðlastarf er allsráðandi og áhugaverðar nýjar hugmyndir í menntun hafa litið dagsins ljós,“ sagði Summo um Ásbrú. „Það er gaman að sjá hvernig til hefur tekist við að breyta herstöðinni yfir í menntasamfélag. Hér er mikil sköpunargleði í bland við ungt fólk sem er góð blanda. Heimsókn mín á Ásbrú hefur verið mjög lærdómsrík og komið mér nokkuð á óvart.“
Summo fer reglulega í heimsóknir vítt og breytt og landið. Ísland er í miðri aðildarumsókn að ESB og segir Summo að Íslendingar hafi mikinn áhuga á málinu. Þjóðin virðist vera klofin í málinu og því telur Summo mikilvægt að skapa umræðu um málið.
„Íslendingar hafa mikinn áhuga á þessu málefni og spyrja margra spurninga. Hér á Ásbrú sjá menn kosti þess að ganga inn í ESB sem styður vel við bakið á frumkvöðlastarfi. Ég held að ESB gæti hjálpað verulega því frábæra starfi sem á sér stað á þessu svæði.“