Sef betur eftir sigra
Sportmenn - stuðningsmannaklúbbur Keflavíkur í knattspyrnu karla er skipaður mörgum fyrrverandi leikmönnum gullaldarliðs Keflavíkur frá árunum 1960-1975. Víkurfréttir hafa fengið gömlu snillingana til að koma skoðunum sínum á framfæri á Víkurfréttavefnum og einnig í blaðinu. Þeir stefna að því að senda pistla eftir hvern leik Keflavíkur og ríður Magnús Torfason á vaðið með fyrsta pistil eftir sigurleikinn gegn Víkingum. Magnús er Sportmaður nr. 1 og er einn af fáum leikmönnum Keflavíkur sem á fjóra Íslandsmeistaratitla að baki með Keflavík, frá 1964 til 1973. Magnús er tannlæknir í Reykjavík en hefur fylgt sínu gamla félagi eftir alla tíð.
Sef betur eftir sigra
93. mínúta og Stefán Örn nýkominn inná skýtur yfir í dágóðu færi. Við erum heppnir að ná jafntefli í þessum leik segi ég við Gunna Jóns sessunaut minn um leið og ég stend upp og bíð eftir lokaflauti dómarans. En hvað? Hár bolti inn að marki Víkinga og Stefán Örn potar boltanum í netið. Miðja tekin og leikurinn flautaður af. Í dag lék lánið við okkur Keflvíkinga.
Mjög hvasst var á leiknum og óhagstætt veður til knattspyrnu og hafði það mikil áhrif á leikinn. Bæði liðin léku betur á móti vindinum en gekk illa að sækja undan honum var mikið um háa langa bolta inn fyrir vörnina en þeir höfnuðu flestir í höndum markvarðanna. Fyrri hálfleikur var frekar jafn, þó sköpuðu Keflvíkingar sér heldur fleiri færi. Eftir ca. 30 min. áttu Víkingar sitt besta skot á mark Keflavíkur, háan bolta sem Ómar varði frábærlega. Augnablikum síðar áttu mínir menn gott upphlaup frá vinstri og fyrirgjöf og Hólmar Örn skoraði með góðu skoti. Við vorum sterkari aðilinn það sem eftir lifði hálfleiks. Í síðari hálfleik varð Baldur að færa sig af miðjunni og í öftustu vörn þegar Farah varð að fara af velli meiddur. Í seinni hálfleik tóku Víkingar völdin á miðjunni og voru betri aðilinn. Sóttu of hart að marki okkar og áttum við í vök að verjast lengst af. Um miðjan hálfleikinn skoruðu þeir gott mark meðan vörnin okkar svaf. Rétt undir blá lokin fóru okkar menn aðeins að rétta úr kútnum og HEPPNIN lék við okkur.
Um liðið er það að segja að Ómar stóð sig mjög vel í markinu. Aftasta vörnin var þokkaleg nema þegar markið kom. Mete er leikmaður sem ég hef dálæti á. Hann minnir mig á minn uppáhalds varnarmann Laurent Blanc, hinn franska. Alltaf yfirvegaður og rólegur, hefur góða boltameðferð og spilar boltanum alltaf vel frá sér. Ómetanlegur fyrir liðið. Miðjan var fremur slök í seinnihálfleik. Vindurinn hafði mikið að segja en fátt kom af góðum boltum á framherjana. Af framherjum fundust mér Simun og Severino (27 ) ekki eiga góðan dag. Komu boltanum illa frá sér og voru bitlausir. Mér virðist Simun, sem er ungur að árum, vanta sjálfstraust. Um leið og það verður meira koma hans góðu hæfileikar til með að nýtast miklu betur. Hólmar Örn er leikmaður sem hverfur stundum langtímum saman í leiknum en kemur svo og gerir það sem þarf. Hann hefur mikla hæfileika sem hann getur nýtt enn betur. Hann á líka að spila hægra megin. Guðmundur er maður sem mér finnst alltaf gaman að sjá spila fótbolta, það er tæknin og skotharkan. Okkar lið er ungt að árum og efnilegt. Erfitt er að dæma liðið eftir þessum leik vegna veðurskilyrða. Ég hef trú á því að Kristjáni og co. takist að koma meira sjálfstrausti inn í liðið. Baráttuandinn er fyrir hendi en trúin á sigur flytur fjöll. Ég vil þakka leikmönnum Keflavíkur fyrir sigurinn. Ég er alltaf hamingjusamari og sef betur þegar Keflavík hefur unnið.
Með baráttu kveðju,
Magnús Torfason Sportmaður Nr.1.