Sárt tap Keflvíkinga gegn KR
Slysalegt mark gestanna réði úrslitum í hörkuleik
Keflvíkingar þurftu að sætta sig við 0-1 tap gegn KR í kvöld er liðin mættust í 17. umferð Pepsí deildar karla. Slysalegt mark um miðbik síðari hálfleik réði úrslitum leiksins en Keflvíkingar áttu skilið meira en ekki neitt úr leiknum.
Það var blíðskaparveður og kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunnar á Nettóvellinum er Keflvíkingar freistuðu þess að leggja allt í sölurnar til að ná í sigur gegn KR-ingum í kvöld. Ósigur myndi einfaldlega reka enn einn naglann í líkkistu heimamanna en sigur gæti kveikt vonarneistann sem til þarf til að snúa gengi liðsins við.
Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks þar sem að heimamenn fengu fyrsta færið er Chuck skaut hátt yfir eftir góðan undirbúning frá Norðmanninum Martin Hummervoll. Hummervoll fékk svo sjálfur virkilega gott færi eftir sendingu Sigurbergs Elíssonar en Stefán Logi í marki KR gerði virkilega vel með að verja.
Njarðvíkingurinn Óskar Örn Hauksson var sprækur í liði KR á fyrstu 20 mínútum leiksins og skapaði oft usla í kringum mark Keflvíkinga, annaðhvort með liprum sprettum eða eitruðum fyrirgjöfum. KR-ingar voru mjög nálægt því að taka forystuna á 30. mínútu eftir eina slíka en skalli hins hávaxna Hólmberts Arons Friðjónssonar sleikti stöngina á leið sinni framhjá. Hólmbert skallaði svo í slánna í næstu sókn eftir fyrirgjöf frá Jacob Schoop og perlaði sviti á ennum stuðningsmanna Keflavíkur enda KR-ingar farnir að nálgast bílstjórasætið fullmikið fyrir þeirra smekk.
KR-ingar fundu blóðbragð eftir þetta og sóttu enn stífar á heimamenn sem þó fengu sín færi þegar skyndisóknir þeirra gengu upp. Það var hins vegar títt nefndur Óskar Örn sem var maður fyrri hálfleiksins og hreinlega potturinn og pannan í sóknaraðgerðum gestanna. Á 37. mínútu gerði hann sig líklegann til að sneiða inn marki af um 50 metra færi en mögnuð skottilraun hans hafnaði í slánni!
Þrátt fyrir að KR-ingar hafi sótt mikið og mögulega átt skilið að vera yfir í hálfleik voru það heimamenn sem að fengu sennilega besta færi fyrri hálfleiks, á markamínútunni hinni 43. Martin Hummervoll og Chuck voru þá tveir á móti einum varnarmanni KR-inga en skottilraun Chuck fór víðsfjarri, en Chuck virtist fyrirmunað að gera heiðarlega tilraun að marki KR í fyrri hálfleik.
Á einhvern óskiljanlegan hátt var staðan því 0-0 í hálfleik en óhætt er að segja að skemmtanagildið hafi verið talsvert þessar fyrstu 45 mínúturnar.
Fyrstu 15-20 mínútur síðari hálfleiks voru með rólegra móti og ljóst að hvorugt liðið vildi verða fyrra til að gefa mark. Mikil barátta og ákefð var í leikmönnum beggja liða sem að ætluðu sér að selja sig dýrt fyrir stigin þrjú.
KR-ingar fengu tvö virkilega góð færi á 67. og 68. mínútu þegar Gary Martin skallaði góða sendingu Jacobs Schoop að marki af stuttu færi en Sindri Ólafsson í marki Keflavíkur sýndi stórbrotin tilþrif er hann varði frá Englendingnum. Mínútu síðar fékk Martin annað dauðafæri en honum brást bogalistinn illa í það skiptið líka. Skall þar hurð nærri hælum fyrir heimamenn.
Eftir öll þau góðu færi sem að KR-ingar höfðu fengið var það í besta falli kaldhænislegt hvernig eina mark leiksins kom til. KR-ingar sendu boltann fyrir mark Keflvíkinga þar sem að Einar Orri Einarsson hreinsaði frá marki en ekki vildi betur til en að spyrna hans hafnaði í fyrirliða KR, Pálma Rafni Pálmasyni og þaðan lak hann í markið framhjá Sindra í markinu.
Keflvíkingar gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og átti Sigurbergur Elísson bestu færi heimamanna en skottilraunir hans fóru rétt framhjá marki gestanna í tvígang. Það var svo Hörður Sveinsson, sem hafði komið inná sem varamaður, sem átti síðasta færi heimamanna á að krækja í stig en skot hans á 90. mínútu sigldi rétt yfir markið.
Ekki voru fleiri mörk skoruð og voru það því KR-ingar sem unnu sætan 0-1 sigur og eru þar með þremur stigum ríkari fyrir vikið.
Keflvíkingar voru virkilega óheppnir að fá ekki meira út úr þessum leik. Fín færi og góð barátta hefðu jafnvel getað skilað þeim öllum stigunum sem í boði voru. Staða þeirra í deildinni batnaði ekki með úrslitunum og eru nú aðeins fimm umferðir eftir af Íslandsmótinu.
Keflvíkingar þurfa að vinna upp 8 stig í þessum 5 leikjum og þurfa því að treysta á að ÍA, ÍBV og Leiknir fari ekki að taka uppi á því að vinna sér inn of mörg stig í næstu umferðum.