Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sara stefnir á háskólanám í Bandaríkjunum
Sunnudagur 5. október 2014 kl. 09:00

Sara stefnir á háskólanám í Bandaríkjunum

Líklega síðasta tímabil hennar hérlendis í bili

Að öðrum ólöstuðum hefur Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir, verið besti ungi leikmaður Dominos deildarinnar í körfubolta undanfarin ár. Svo góð hefur hún verið að mörgum þykir orðið tímabært að hún reyni fyrir sér á erlendri grundu. „Það hefur alltaf verið draumur minn að spila körfubolta í háskóla í Bandaríkjunum. Það er allt í vinnslu núna,“ segir Sara í samtali við VF. Hún stefnir á að útskrifast úr FS núna næsta vor á þremur árum og síðan er stefnan sett vestur um haf.

Hún viðurkennir að nokkur fjöldi skóla hafi sett sig í samband við hana eftir Evrópumót 18 ára landsliðsins í Rúmeníu í sumar. „Ég get líklega valið úr nokkrum skólum, það er hálfgert lúxusvandamál. Það er þó ekkert í hendi og ég veit lítið eins og staðan er í dag.“ Sara veit að margt mun spila inn í þegar á hólminn er komið enda sé þetta gríðarlega stór ákvörðun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verður þetta þá síðasta tímabilið þitt hjá Keflavík? „Ég ætla ekki að lofa neinu en það er draumurinn að fara út. Ég held að það sé bara svo skemmtilegt að geta fengið skólastyrk út á það sem þú elskar,“ segir Sara og það er augljóst að þetta er henni hjartans mál.

Keflvíkingar urðu á dögunum Lengjubikarmeistarar þar sem Sara fór hreinlega hamförum. Hún leiddi liðið í skoruðum stigum (24,5), fráköstum (11,8) og stoðsendingum (4,7). Hún dró vagninn þar sem erlendur leikmaður liðsins lék ekki með liðinu fyrr en í úrslitaleiknum.
„Það má segja að við séum að koma vel undan sumri. Við erum búnar að æfa vel og æfingaferðin til Spánar gerði okkur gott. Við héldum að við værum að fara einhverja skemmtiferð en svo var aldeilis ekki,“ segir Sara létt í bragði. „Siggi þjálfari kann þetta alveg og barði okkur áfram þegar við þurftum á því að halda.“

Nánast ekkert sumarfrí

Sara segir að hópurinn sé samheldinn enda séu leikmenn búnir að spila talsvert saman í gegnum yngri flokka og þekkist því vel. Sara er nýorðin 18 ára og er þegar orðin ein af reynslumestu leikmönnum liðsins. Í sumar fékk Sara lítið frí frá körfuboltanum enda var hún að leika með yngri landsliðum Íslands. Það má því segja að tímabilinu hafi aldrei lokið hjá henni. Margir leikmenn nota sumartímann til þess að bæta sig og æfa af krafti. Sara segist ekki hafa gefið sér mikinn tíma til þess að æfa fyrir utan þessar venjulegu æfingar. Hún á það þó til að skella sér út að skokka þegar hún er ekki að æfa, en það gerir hún til þess að hreinsa hugann og róa taugarnar. „Það hef ég gert í mörg ár og þykir afskaplega gaman.“

Þegar talið berst að komandi tímabili þá telur Sara að deildin verði jöfn og spennandi en Keflvíkingar séu líklegir til afreka. „Við viljum rosalega mikið vinna og gerum allt til þess að svo verði. Það er mikil sigurhefð hjá okkur, en við höfum flestar farið upp alla yngri flokka og unnið allt þar. Við tökum það með okkur inn í meistaraflokkinn núna. Ég held að við séum líklegar í vetur en það verður ekki auðvelt, við verðum að hafa fyrir því,“ segir Sara.

20 ára aldursmunur - Birna eldri en mamma Söru

Birna Valgarðsdóttir hefur reynst Söru mikil fyrirmynd enda fer þar mikill reynslubolti. Aldursmunurinn á þessum tveimur leikmönnum er 20 ár. Birna er á lokametrunum á sínum ferli en ennþá er ekki fyrirséð hvort hún ætli sér að vera með liði Keflvíkinga í vetur. „Hún er bara „one of a kind,“ hún er eldri en mamma mín en passar þvílíkt vel inn í hópinn og æfir af krafti. Hún rífur okkur upp þegar við erum kannski að hengja haus í leikjum. Hún er með reynsluna og er sífellt að kenna manni. Hún er algjör lykilleikmaður, ekki bara inn á vellinum heldur líka vegna þess að hún kemur með svo margt til borðsins,“ segir Sara um Birnu.
Getur þú ímyndað þér að eiga 20 ár eftir í boltanum? „Guð ég veit ekki. Já eigum við ekki að segja það bara,“ segir Sara að lokum og hlær.