Sara Sigmunds er rétt að hitna
Setur markið hátt á árinu 2016 - Lífið talsvert breytt eftir heimsleikana
Eftir tæplega mánaðardvöl á ferðlagi um heiminn er Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir loks komin á heimaslóðir. Hún hefur verið meira og minna á ferðinni alveg síðan heimsleikarnir í crossfit fóru fram síðasta sumar. Þeir leikar breyttu lífi Söru til muna enda er hún núna orðin vel þekkt í þessari vinsælu grein víða um heim eftir að hafnað í þriðja sæti á leikunum. Njarðvíkingurinn ætlar sér stóra hluti á þessu ári og gera má ráð fyrir atlögu að heimsmeistaratitlinum sjálfum.
„Líf mitt breyttist heldur betur. Þetta er eiginlega yfirþyrmandi, ég er að fá endalaust af allskonar boðum að koma hingað og þangað um heiminn að halda námskeið og að heimsækja nýjar crossfit stöðvar. Auðvitað eru þetta frábær boð en maður þarf víst að halda sér á jörðinni og hugsa um aðalmarkmiðið fyrir þetta ár og hvort að þessi ferðalög hafi áhrif á æfingar, “ segir Sara sem er nýlega komin frá Brasilíu. Hún er með sín markmið á hreinu fyrir þetta ár og ljóst að hún ætlar sér stærri hluti en áður þrátt fyrir að afrekaskráin sé orðin löng og tilkomumikil.
„Ég get alveg sagt það að markmiðin mín eru sett mjög hátt fyrir þetta árið, þannig þetta mót var bara upphitun fyrir árið,“ segir Sara sem nýlega sigraði á sterku móti í Boston og það annað árið í röð. Framundan er undankeppnin fyrir Evrópuleikana sem fara fram í Madrid í lok maí. Hún fagnaði einmitt sigri á Evrópuleikunum í fyrra. Í raun er um mun stærra svæði en Evrópu að ræða sem tekur þátt í þessum leikum. Svæðið spannar Evrópu, Mið-Austurlönd og Afríku. Sara segist vonast til þess að komast á heimsleikana aftur í sumar en til þess þarf hún að standa sig í undankeppni Evrópuleikana sem hefst núna í lok febrúar.
Svissneska lögreglan meðal æstra aðdáenda
Eins og áður segir er Sara orðið þekkt nafn í heimi crossfit sem er stór grein á heimsvísu. Hún er með samninga við þekkt fyrirtæki eins og Nike Global og bandarískt fæðubótarefni sem heita FitAid. Hún segir það vera nokkuð yfirþyrmandi að fólk þekki hana úti á götu og vilji fá mynd af sér með henni. Á samfélagssmiðlunum er Sara vinsæl. Á Instagram ljósmyndaforritinu á hún 140 þúsund fylgjendur og á Facebook hafa 28 þúsund manns líkað við síðuna hennar. Þegar hún setur inn efni á þessar síður þá fær hún hundruð svara og deilinga í hvert skipti.
„Ég er ekki alveg búin að átta mig á því hversu stórt crossfitið er orðið, en ég hef lent í tveimur góðum atvikum eftir leikana. Fyrst kom það upp skömmu eftir heimsleikana að ég var í Bláa lóninu með vinkonu minni og var að ganga inn þegar stoppaði mig maður og sagði að hann væri aðdáandi minn númer eitt. Hann hafði horft á alla crossfitleikana og hann vildi endilega fá mynd af sér með mér. Ég hugsaði bara hverjar voru líkurnar á öllum sem voru þarna að hann vissi hver ég var? Svo var ég seinna að keppa í Sviss og þá var ég á leið yfir götu þegar lögga kom hlaupandi til mín öskrandi og stoppar mig. Hún trúði því ekki að hún hafi hitt mig og vildi endilega fá mynd af sér með mér. Þannig það er hægt að segja að lífið mitt sé búið að breytast töluvert mikið,“ segir Sara og hlær.
Þarf að passa stressið og einbeitinguna
Á síðustu heimsleikum leit lengi vel út fyrir að Sara væri að fara að fagna sigri en henni fataðist flugið á síðasta degi. Hún hefur markvisst verið að vinna í hlutum sem hún telur til veikleika sinna. Þá þarf að bæta til þess að sigra næstu heimsleika. „Ég verð að passa að gera ekki nýliða mistök, eins og þjálfarinn minn kallar það. Ég á það til að vera of stressuð áður en ég keppi og lendi stundum í því að missa einbeitingu, en ég er að vinna í því núna,“ segir þessi magnaða íþróttakona.