Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sara Rún slær í gegn - Í úrvalsliðið aðeins 16 ára
Sara Rún Hinriksdóttir hefur leikið vel í vetur.
Laugardagur 5. janúar 2013 kl. 09:05

Sara Rún slær í gegn - Í úrvalsliðið aðeins 16 ára

Þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gömul þá hefur Sara Rún Hinriksdóttir úr Keflavík stimplað sig sem einn af bestu leikmönnum Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik. Hún var í gær valin í úrvalslið fyrri hluta deildarinnar og er vel að þeirri útnefninu komin.

Sara Rún hefur skorað 15 stig að meðaltali í leik og tekið 9 fráköst. Hún hefur verið byrjunarliðsmaður hjá Keflavík í vetur og leikið 31,17 mínútur að meðaltali sem er meiri spiltími en flestir 16 ára leikmenn í deildinni fá. Sara er mikið efni í íþróttinni og gæti náð langt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er auðvitað bara annað tímabilið mitt í meistaraflokki og ég held að sé ekki algengt að leikmenn fái að vera í byrjunarliðinu 16 ára gamli. Ég bjóst ekki við því en ég var stundum í byrjunarliðinu í fyrra ef einhverja leikmenn vantaði,“ segir Sara Rún í viðtali við Morgunblaðið.

„Ég ákvað á æfingunum síðasta sumar að sýna mig fyrir Sigga af því að ég hafði aldrei spilað fyrir hann áður. Ég vildi sýna að mig langaði til að gera stóra hluti.“

Keflavík hefur unnið alla 14 leiki sína í deildinni til þessa og er liðið ennþá ósigrað í vetur. Það er nóg að gera hjá Söru því hún spilar einnig leiki í stúlknaflokki. „Ég spila nánast alla leiki hjá stúlknaflokki en þar eru alls fimm helgarmót á tímabili með úrslitakeppninni. Stundum kemur fyrir að helgarmót eru á laugardegi og sunnudegi hjá yngri flokkunum og meistaraflokksleikur um kvöldið. Þá reyni ég að spila minna í leikjum stúlknaflokk,“ segir Sara Rún. Hún stundar nám við Verzlunarskóla Íslands og því er dagskráin þétt hjá þessari ungu Keflavíkursnót.