Sara Hrund á leið í endurhæfingu eftir höfuðhögg
Sara Hrund Helgadóttir, fyrrum leikmaður Grindavíkur í knattspyrnu, er á leið á Grensás eftir sex höfuðhögg. Sara hefur verið með þráláta höfuðverki í átta ár en árið 2009 fékk hún slæmt höfuðhögg í leik þar sem hún rotaðist og fékk heilahristing í kjölfarið. Aðeins þremur dögum síðar spilaði hún annan leik en ekki var talið að hún þyrfti að hvíla eftir höfuðhöggið og í dag er hún að glíma við afleiðingarnar. Sara kom fram í Kastljósi í síðustu viku þar sem að hún talaði um að umræðan um höfuðhögg væri of lítil en sé núna að koma betur fram í dagsljósið.
Sara sagði í þætti Kastljóss að keppnisskapið væri mikið hjá íþróttafólki og að það væri duglegt að fela meiðslin fyrir sjálfum sér og öðrum. Hún var á sínum tíma að upplifa drauminn á fullum skólastyrk í Bandaríkjunum í námi og að spila fótbolta. Henni fannst of mikið í húfi til að hætta.
Sara fékk höfuðhögg í leik gegn ÍBV í sumar en hún var ekki tekin út af eftir það og spilaði áfram í sautján mínútur og skallaði síðan boltann. Það höfuðhögg hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér og lagði hún skóna á hilluna eftir þann leik. Víkurfréttir ræddu við Söru Hrund í sumar eftir að hún hafði lagt skóna á hilluna.
Hér má síðan sjá viðtalið við Söru Hrund í þætti Kastljóss og Hafrúnu Kristjánsdóttur sem er lektor íþróttasviðs HR en hún hefur rannsakað algengi höfuðhögga meðal íþróttafólks.