Sanngjarnt jafntefli á Keflavíkurvelli
Keflavík og Valur skildu jöfn, 1-1, á Keflavíkurvelli í Landsbankadeildinni í dag. FH-ingar báru sigur úr býtum gegn Víkingum, 4-0, og fögnuðu því sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð. Það var fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson sem gerði mark Keflvíkinga og Guðmundur Benediktsson sem skoraði fyrir Val. Þegar aðeins ein umferð er eftir af Landsbankadeildinni eru Keflvíkingar í 4. sæti deildarinnar með 24 stig en Valsmenn eru í 3. sæti með 28 stig. Keflavík getur því aðeins með sigri í næstu umferð tryggt sér 4. sætið en Fylkir og ÍA koma í sætunum á eftir Keflavík með 21 stig.
Gestirnir frá Hlíðarenda hófu leikinn af miklum krafti og áttu nokkur fín færi á upphafsmínútunum. Keflvíkingar komust þó hægt og bítandi inn í leikinn og áttu þeir Jónas Guðni og Branco báðir ágætisfæri sem rötuðu ekki rétta leið. Á 15. mínútu mundaði Guðmundur Steinarsson fallbyssuna er hann bombaði á Valsmarkið úr aukaspyrnu, Kjartan Sturluson varði vel hjá Val en boltinn barst út í teiginn. Keflvíkingar fylgdu skoti Guðmundur ekki nægilega vel eftir og Valsmenn náðu að hreinsa frá.
Eftir snarpa skyndisókn á 25. mínútu leiksins komust Valsmenn í 1-0 þegar Guðmundur Benediktsson gerði sitt fyrsta mark í langan tíma. Eftir markið pressu heimamenn stíft á gestina og uppskáru fyrir erfiðið á 36. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd á varnarmenn Vals fyrir að brjóta á Hallgrími Jónassyni í teignum. Fyrirliðinn Guðmundur tók spyrnuna en Kjartan varði í markinu. Guðmundur fylgdi skotinu eftir og tókst að skora á meðan vallargestir supu hveljur. Liðin gengu svo jöfn til hálfleik í stöðunni 1-1.
Eftir fjörlegan fyrri hálfleik var sem tvö gerbreytt lið gengu inn á völlinn í síðari hálfleik. Leikurinn var þunglamalegur hjá báðum aðilum en Valsmenn virtust þó líklegri til þess að bæta við marki.
Liðin áttu sitthvort færið í síðari hálfleik en í bæði skiptin voru Kjartan og Ómar, markverðir, vel með á nótunum og bægðu hættunni frá. Jafntefli voru því nokkuð sanngjörn úrslit í blíðskaparviðrinu á Keflavíkurvelli.
Síðasta umferðin í Landsbankadeildinni fer svo fram laugardaginn 23. september og þá leika Keflvíkingar gegn Breiðablik á Kópavogsvelli.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Þorgils Jónsson