Sanngjarn stórsigur ÍBV
Keflavíkurstúlkur töpuðu illa gegn ÍBV í dag, 1-5, á heimavelli sínum. Þær áttu alls ekki góðan dag og voru gestirnir frá Eyjum nokkrum númerum of stórar.
Eyjastúlkur komust yfir strax á 16. mínútu eftir að hafa verið betri aðilinn í leiknum. Keflvíkingar tóku þá aðeins á og sóttu duglega og hefðu með réttu átt að fá vítaspyrnu á 23. mínútu þegar markvörður ÍBV hreinlega sneri Keflvíkinginn Vesnju Smiljkovic niður í teignum. Dómari leiksins var hins vegar ekki á sama máli og lét leikinn halda áfram.
Skömmu síðar juku Eyjastúlkur forskotið og settu svo þriðja markið þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri háfleik.
Staðan var 0-3 og útlitið ekki gott, en öll mörkin mátti skrifa á slælega vörn og andleysi á miðjunni þar sem ÍBV hafði mikla yfirburði.
Leikur Keflvíkinga batnaði ekki mikið í seinni háfleik en vörnin hélt alla veganna framan af. Keflvíkingar minnkuðu muninn á 79. mínútu þegar þjálfarinn Ásdís Þorgilsdóttir skoraði glæsilegt mark og hélt mvonum sinna leikmanna á lofti, hversu veikar sem þær voru. Þær kulnuðu þó fljótt því á 82. mín ráku Eyjastýlkur naglann í kistu heimamanna og rétt fyrir leikslok breyttu þær stöðunni í 1-5 og fjórða tap Keflvíkinga í Landsbankadeildini í röð var staðreynd.
Ásdís sagði í samtali við Víkurfréttir að mikið hafi vantað upp á í liði þeirra í dag. „Við vorum að gera allt of mörg mistök í vörninni og auðveldir hlutir eins og stutta spilið var ekki að ganga vel. Svo fannst mér við ekki vera að berjast nóg og það dugar ekki til gegn liði eins og ÍBV. Næsti leikur okkar er gegn Stjörnunni og við verðum að gera betur þá!“
VF-myndir/Þorgils: Myndir 3 og 4 sýna atvikið sem átti með réttu að vera víti í fyrri háfleik.