Sanngjarn sigur á Þrótti og Keflavík í 4. sæti
Það var boðið upp á markaveislu í lokin á leik Keflavíkur og Þróttar í Pepsi-deildinni á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í kvöld. Lokatölurnar voru 3:2 fyrir Keflavík og komu þrjú mörk í blálokin á leiknum eða á síðustu fjórum mínútum leiksins.
Staðan var markalaus í hálfleik en Stefán Örn Arnarson kom Keflvíkingum á bragðið á 48. mínútu með fallegu marki. Stefán kom inná í fyrri hálfleik fyrir Simun Samúelsson sem fór útaf meiddur. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl hans eru.
Magnús Þorsteinsson bætti við öðru marki Keflavíkur úr vítaspyrnu eftir að markvörður Þróttar hafði brotið á Hauki Inga Guðnasyni.
Þróttarar náðu að minnka muninn úr vítaspyrnu þegar á 87. mínútu með marki Magnúsar Más Lúðvíkssonar. Skyndilega var komið fjör í leikinn og Hörður Sveinsson skoraði fyrir Keflavík og staðan orðin 3:1. Það var hins vegar Þróttarinn Andrés Vilhjálmsson sem skoraði annað mark Þróttar á síðustu sekúndunum.
Hinn keflvíski þjálfari Þróttar, Gunnar Oddsson, var langt frá því að vera sáttur þar sem hann stóð á hliðarlínunni og má þakka fyrir að hafa ekki fengið spjald en hann lét línuvörðin heyra það þegar Hörður Sveinsson skoraði þriðja mark Keflavíkur en Gunnar vildi meina að Hörður hafi verið rangstæður.
Sigur Keflavíkur var sanngjarn í ágætum leik þar sem öll mörkin voru skoruð í síðari hálfleik. Næsti leikur Keflavíkur er gegn Grindavík á sunnudagskvöld í Grindavík. Grindvíkingar léku í kvöld gegn KR í Frostaskjóli. Grindavík tapaði leiknum með tveimur mörkum gegn engu en það var Baldur Sigurðsson sem skoraði bæði mörk KR á 31. og 36. mínútu í fyrri hálfleik.
Efri myndin: Stefán Örn Arnarson skoraði fyrsta mark Keflavíkur. Stefán Örn kom inn sem varamaður fyrir Simun Samuelsen sem fór útaf meiddur.
Meðri myndin: Hörður Sveinsson skorar þriðja mark Keflavíkur í leiknum í kvöld.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson