Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sannfærandi sigur í botnslag
Þriðjudagur 31. maí 2005 kl. 01:13

Sannfærandi sigur í botnslag

Grindvíkingar sóttu sín fyrstu stig í Landsbankadeildinni í sumar þegar þeir báru sigurorð af botnliði ÍBV, 2-1, í kvöld.

Leikurinn byrjaði fjörlega og fengu stuðningsmenn Grindvíkinga, sem fjölmenntu á völlinn í góða veðrinu eitthvað til að gleðjast yfir þegar Sinisa Kekic kom þeim yfir á 11. mínútu leiksins.

Mounir Ahandour, sem átti fínan leik í kvöld og virðist óðum vera að ná sér á strik, fékk boltann niður á vinstri kantinn eins og svo oft í leiknum og sendi hann fyrir þar sem Kekic kom aðvífandi. Hann skoraði með góðu skoti utarlega í teignum óverjandi fyrir Birki Kristinsson og kom sínum mönnum yfir í fyrsta skipti á leiktíðinni.

Adam og Grindvíkingar voru hins vegar ekki lengi í Paradís því að ekki var liðin nema rétt mínúta þegar Eyjamenn höfðu svarað fyrir sig. Þar var að verki Matthew Platt sem notfærði sér slælega dekkun Grindvíkinga og skallaði fyrirgjöf Magnúsar Más Lúðvíkssonar í netið án þess að Boban Savic kæmi vörnum við, 1-1.

Þess var þó ekki langt að bíða þar til heimamenn tækju gleði sína á ný því á 16. mínútu braut Birkir Kristinsson á Ahandour þegar hann kom á hlaupum inn í teiginn og dómarin dæmdi víti án þess að blikna. Óli Stefán Flóventsson skoraði svo örugglega úr vítinu og kom sínum mönnum yfir á ný.

Eftir þessa markahríð á fimm mínútum róaðist leikurinn nokkuð og náðu Grindvíkingar nokkuð öruggum tökum á leiknum. Kekic átti ágætt skot úr aukaspyrnu af 20m færi um miðbik fyrri hálfleiks og stuttu síðar átti Eyjamaðurinn Andri Ólafsson skalla að marki Grindavíkur sem Savic varði vel.

Undir lok fyrri hálfleiks var sem leikskipulag Grindvíkinga riðlaðist nokkuð og fór að örla á mistökum sérstaklega í vörninni. Þar voru þeir heppnir að Ian Jeffs átti slakt skot að marki eftir að hann lék á Savic utarlega í teignum á 43. mínútu. Aðþrengdur náði Jeffs að losa boltann í átt að marki en varnarmenn náðu boltanum áður en hann fór inn. Rétt fyrir lok hálfleiksins skaut Jeffs svo framhjá marki úr teignum eftir að varnarmenn náðu ekki að losa boltann út úr teignum.

Leikurinn var jafn í upphafi seinni hálfleiks en augljóst var að leikur Grindvíkinga var alls ekki eins öruggur þar sem þeir féllu sífellt aftar á völlinn.

ÍBV áttu fyrstu færin sem voru ekki mjög ógnandi þó. Ahandour komst þó í gott færi á 59. mínútu eftir stungusendingu frá Eysteini Haukssyni en skot hans úr þröngu færi geigaði.

Lítið var í gangi hjá liðunum og var framtaksleysi þeirra framávið lítið þar sem Grindvíkingar virtust rúnir sjálfstrausti. Fæst orð bera svo minnsta ábyrgð um marksækni ÍBV sem var ekki upp á marga fiska það sem eftir var leiks þó Grindvíkingar leyfðu þeim að sækja framarlega á völlinn.

Lokamínúturnar voru ekki spennandi þar sem heimamenn voru líklegri til að bæta við mörkum en hitt. Sérstaklega komust Óli Stefán og Óskar Hauksson nálægt því að gulltryggja sigurinn, en skalli Óla og skot Óskars af stuttu færi fóru bæði beint á Birki í markinu.

Í heildina geta Grindvíkingar verið sáttir við leikinn í kvöld því að þó þeir hafi ekki verið að spila vel allan tímann náðu þeir þó að landa sigri. Mannskapurinn hjá þeim er klárlega nógu góður til að standa í flestum liðum deildarinnar og virðist sem þeir þurfi einungis að öðlast meiri trú á sig og það sem þeir eru að gera.

Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindvíkinga tekur undir slíkar kenningar: „Þetta var ekki okkar besti leikur í sumar. Fyrri hálfleikur var í lagi en í þeim seinni vantaði okkur sjálfstraust. Leikurinn í kvöld var mjög mikilvægur og skipti miklu máli og við vorum mjög stressaðir í fyrri hálfleik. Við fengum samt þrjú stig og það gefur okkur vonandi sjálfstraust til að halda áfram. Það er það eina sem við þurfum,“ sagði Milan og bætti því við að hann væri sérlega ánægður með stuðningsmennina sem höfðu ekki gefist upp þrátt fyrir erfitt gengi í upphafi leiktíðar.


 

VF-myndir/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024