Sannfærandi sigur Grindvíkinga
Grindavík gerði góða ferð á Seltjarnarnes í gær þegar liðið mætti Gróttu í fyrsta leik sjöttu umferðar Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu. Grindvíkingar réðu lögum og lofum í leiknum og uppskáru sanngjarnan sigur.
Grótta - Grindavík 0:1
Gróttukonur voru aldrei líklegar til afreka í þessum leik og Grindavík klárlega sterkari aðilinn. Eina mark leiksins kom á 21. þegar Jasmine Aiyana Colbert vann boltann af varnarmanni Gróttu inni í teignum, gaf á Arianna Lynn Veland sem afgreiddi boltann fagmannlega framhjá markverðinum og í netið.
Colbert reyndist vörn Gróttu erfið allan leikinn og með hraða sínum skapaði hún sér nokkrum sinnum sannkölluð dauðafæri en í markið vildi boltinn ekki hjá henni.
Með sigrinum komst Grindavík upp í fjórða sæti deildarinnar en sú staða gæti breyst.
Leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.
KV - Þróttur 0:2
Þróttarar unnu fjórða leikinn í röð í 2. deild karla þegar þeir lögðu KV í Vesturbænum í gær.
Fyrsta markið leit dagsins ljós á 50. mínútu þegar leikmaður KV skoraði sjálfsmark. Adam Ægir Róbertsson tryggði sigurinn með sínu sjötta marki í jafnmörgum umferðum (60').
Þróttur er efst í deildinni með þrettán stig, jafnt Víkingi Ólafsvík en með betri markatölu.
Víðir - Magni 1:1
Víðismenn töpuðu stigum annan leikinn í röð þegar þeir tóku á móti Magna á Nesfiskvellinum í gær.
Víðir komst yfir með marki frá Tómasi Leó Ásgeirssyni (59') en Magnamenn jöfnuðu skömmu fyrir leikslok (87').
Víðir heldur toppsætinu og á hæla þeirra koma Reynismenn í öðru sæti.