Sannfærandi sigur á Stjörnunni
Keflvíkingar lögðu Stjörnumenn sannfærandi þegar liðin mættust í Blue-höllinni í Subway-deild karla í gær. Eftir nokkuð jafna byrjun tóku Keflvíkingar örugga stjórn á leiknum og uppskáru fimmtán stiga sigur að lokum.
Keflavík - Stjarnan 80:65
(14:16, 23:17, 25:20, 18:12)
Fyrsti leikhluti var mjög jafn þar sem bæði lið voru að hitta illa og ekki að ná vel saman. Stjarnan leiddi með tveimur stigum í lok leikhlutans en Keflavík bætti það upp í öðrum leikhluta og var þremur stigum yfir í hálfleik (37:33).
Keflvíkingar bættu í eftir því sem leið á leikinn og juku aðeins forskotið, unnu þriðja leikhluta með fimm stigum og þann fjórða með sex stigum. Góður og sanngjarn sigur á sterku Stjörnuliði en bæði lið eiga talsvert langt í land með formið og munu væntanlega styrkja sig dag frá degi.
David Okeke var afgerandi bestur á vellinum í kvöld og réðu Stjörnumenn ekkert við hann. Okeke skilaði 24 stigum í hús auk þess að taka ellefu fráköst.
Frammistaða Keflvíkinga: David Okeke 24/11 fráköst, Calvin Burks Jr. 16, Valur Orri Valsson 13/5 fráköst, Dominykas Milka 10/6 fráköst, Jaka Brodnik 10/11 fráköst, Arnór Sveinsson 5, Halldór Garðar Hermannsson 2, Ágúst Orrason 0, Frosti Sigurðsson 0, Magnús Pétursson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Hörður Axel Vilhjálmsson 0/7 fráköst/7 stoðsendingar.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndasafn úr leiknum neðar á síðunni.