Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sandra Lind: Höfum ekki sýnt okkar besta
Sunnudagur 6. desember 2015 kl. 11:24

Sandra Lind: Höfum ekki sýnt okkar besta

Sandra Lind Þrastardóttir hefur leikið feikilega vel með liði Keflavíkur Domino’s deildinni í vetur. Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára er þetta fimmta tímabilið hennar í deildinni. Hún hefur verið einn af leiðtogum hins unga Keflavíkurliðs og hefur unnið sér inn sæti í landsliðinu. Hún er þokkalega sátt við stöðu Keflavíkur í deildinni og reiknar með því að liðið verði í efstu fjóru sætunum.

„Það eru alls kyns litlir hlutir hjá okkur sem auðveldlega hefði mátt gera betur. Við hefðum t.d. ekki átt að tapa gegn Hamri. Við erum á fínum stað en það gæti verið betra.
Margsinnis hefur verið talað um hversu ungt lið Keflvíkinga er. Hvaða er erfitt við það að vera með svona ungt lið? „Það er aðallega stöðuleiki. Svo er það líka sjálfstraust. Mörgum finnst kannski stelpunum í hinum liðunum vera rosalega stórar, enda eru þær búnar að horfa upp til þeirra lengi,“ segir Sandra. Hún segist nokkuð sátt við eigin frammistöðu en hana langar að gera betur. „Auðvitað þurfti ég að taka ábyrgð. Það er kominn tími til enda er þetta fimmta tímabilið mitt,“ segir Sandra. Hún segist frekar þora að taka af skarið núna og er óhrædd við að taka skotin sem henni bjóðast.

Sandra var hluti af landsliði Íslands sem lék gegn sterkum liðum Slóvakíu og Ungverjalands. Þar komst miðherjinn ungi vel frá sínu í baráttu við gríðarlega hávaxin lið. „Það var rosaleg reynsla og ótrúlega gaman. Þetta voru alvöru leikir. Þarna vorum við að spila gegn 12 atvinnumönnum sem var alveg geggjað.“

Varðandi möguleika Keflvíkinga á þessu tímabili þá telur Sandra að liðið eigi vel heima í fjórum efstu sætunum. „Við höfum ekki ennþá spilað leik á þessu tímabili þar sem við höfum sýnt okkar besta og spilað af fullri getu. Það þarf líka bara að fara að gerast til þess að við getum verið í toppbaráttu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erfitt er að horfa framhjá brotthvarfi Bryndísar Guðmundsdóttur úr liðinu enda er hún einn besti leikmaður landsins. Sandra vill lítið tjá sig um það mál en viðurkennir að það hafi vissulega haft áhrif á liðið. „Auðvitað fundum við fyrir þessu og þetta var mikill missir fyrir okkur. Þetta var líka bara leiðinlegt. Við sem höfum spilað með henni og stóðu næst henni, fundum meira fyrir þessu en þær yngri,“ en Sandra viðurkennir að það hafi tekið smá tíma fyrir liðið að hrista þetta mál af sér.

„Við höfum ekki ennþá spilað leik á þessu tímabili þar sem við höfum sýnt okkar besta og spilað af fullri getu. Það þarf líka bara að fara að gerast til þess að við getum verið í toppbaráttu.“