Sandgerðingur þriðji í Eyjatorfæru
Sævar Már Gunnarsson er 27 ára Sandgerðingur sem er í Akstursíþróttafélagi Suðurnesja, AÍFS, og keppir í götubílaflokki í torfæru. Hann byrjaði í fyrra og tók þá þátt í tveimur keppnum. Í vetur tók hann sig svo til og endurbætti bílinn sinn mikið.
Einn stærsti viðburður á Goslokahátíðinni þann 7. júlí var Skipalyftutorfæran sem haldin var austur á nýja hrauninu á Heimaey. Torfærukeppni hafði ekki verið haldin í Vestmannaeyjum síðan 1984. Tuttugu keppendur voru skráðir til leiks, 5 í götubílaflokki og 15 í sérútbúnum flokki.
Sævar endaði í 3. sæti í götubílaflokki með 1802 stig. Í götubílaflokki var mikil slagur alla keppnina og var það Ívar Guðmundsson sem stóð uppi sem sigurvegari á Kölska og annar varð nýliðinn í hópnum, Jón Vilberg Gunnarsson á Snáðanum. Þriðji varð síðan Sandgerðingurinn Sævar Már Gunnarsson á Willys en þetta er hans besti árangur í keppni eftir miklar endurbætur á bílnum á liðnum vetri.
Tveir keppendur frá AÍFS voru í sérútbúna flokknum, feðgarnir frá Selfossi, Benedikt Helgi Sigfússon og Sigfús Gunnar Benediktsson, sem kepptu báðir á Hlunknum. Benedikt endaði í 5. sæti og Sigfús í 8. sæti.
Árni Kópsson var með endurkomu eftir 20 ára fjarveru og vann sérútbúna flokkinn.
Hér eru úrslit keppninnar:
Götubílaflokkur
1. | Ívar Guðmundsson | Kölski | 1878 |
2. | Jón Vilberg Gunnarsson | Snáðinn | 1833 |
3. | Sævar Már Gunnarsson | Willys | 1802 |
Sérútbúinn flokkur
1. | Árni Kópsson | Heimasætan | 1708 |
2. | Eyjólfur Skúlasson | Hlébarðinn | 1493 |
3. | Kristumdur Dagsson | Tímaurinn | 1452 |
Sævar Már með verðlaunin sín eftir keppnina í götubílaflokki. Ljósmynd: Atli Gunnarsson