Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sandgerðingar eiga einn efnilegasta markvörð landsins
Aron í leik með Sandgerðingum sl. sumar.
Sunnudagur 24. febrúar 2013 kl. 14:56

Sandgerðingar eiga einn efnilegasta markvörð landsins

Afþakkaði boð ensku Úlfanna og hefur verið líkt við fyrrum markvörð Man. Utd.

Reynismenn í Sandgerði eiga einn af efnilegri knattspyrnumarkvörðum landsins í Aroni Elísi Árnasyni. Hann hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið yfir 70 leiki með meistaraflokki liðsins og á að baki leiki fyrir yngri landslið Íslands. Aron er metnaðarfullur leikmaður sem líklega mun yfirgefa uppeldisfélag sitt í haust þegar samningur hans rennur út.

Sandgerðingurinn Aron er tvítugur og á að baki leiki fyrir undir 17, 18 og 19 ára lið Íslands. Hann hefur einnig verið í hópi hjá undir 21 árs liði Íslands að undanförnu.
„Það hefur alltaf komið upp reglulega að reyna fyrir sér á öðrum slóðum. Ég hugsa að ég taki eitt tímabil með Reyni og skoða svo hlutina þegar samningur minn klárast í haust,“ segir Aron sem viðurkennir að hann heyri stundum af áhuga annarra liða. Oft kom það upp að fólk ráðlagði honum að fara í sterkara lið til þess að eiga möguleika á því að spila fyrir yngri landslið Íslands. „Ég hafði það þó fram yfir marga markmenn á mínum aldri að ég var sá eini sem var að spila leiki með meistaraflokki,“ en Aron á að baki yfir 70 leiki á Íslandsmóti með meistaraflokki. Fyrsti leikurinn var þegar Aron var aðeins 16 ára gamall. Það þykir nokkuð óvanalegt í jafn ábyrgðarmikilli stöðu eins og markvörður gegnir í fótboltanum.

Aron hefur ávallt verið markvörður en segist oft hafa verið á leiðinni út á völlinn á sínum yngri árum. „Svo endaði maður alltaf aftur í markinu vegna þess að maður treysti engum öðrum til þess að fara í markið,“ segir Aron léttur í bragði.

Aron var ekki valinn í lokahóp U-21 liðsins að þessu sinni en Eyjólfur Sverrisson þjálfari vildi fá mann sem væri að spila reglulega í markið. Reynismenn hafa ekki leikið það sem af er undirbúningstímabili þrátt fyrir að mörg lið séu komin á fullt í undirbúningi fyrir sumarið.

Á sínum tíma bauðst Aroni að fara til enska 1. deildar liðsins Wolverhampton Wonderers en þá lék liðið í neðri deildum. „Það var ekkert sem heillaði mig á þeim tíma. Hvað varðar markmannsþjálfun og slíkt þá hefði ég frekar viljað fara til Hollands eða Belgíu.“

Aron sér ekki endilega fyrir sér að fara í lið sem leikur í úrvalsdeild. Hann segir ekki nauðsynlegt strax að taka of stórt næsta skref á ferli sínum. Fyrst og fremst vill hann fara til liðs þar sem hann fær að spila alla leiki. „Ég hef haft möguleika á því að fara í úrvalsdeildina en sitja svo bara á bekknum. Ég hef engan áhuga á því. Maður er í þessu til þess að spila fótbolta.“

Nýverið tók Atli Eðvaldsson við þjálfun Reynis og Aron er ánægður með störf hins reynda þjálfara. „Atli er toppmaður. Hann veit allt sem hægt er að vita um fótbolta. Hann getur kennt manni ansi mikið um fótbolta.“ Aron segir að Atli komi með nýjar áherslur til Sandgerðis og nú skal spilaður alvöru fótbolti. Aroni líður betur þannig og hugsanlega mun hann gegna stærra hlutverki í spili liðsins. Atli hefur hugsað sér að nota Aron sem aftasta varnarmann ef svo má segja, þannig að Aron verður mikið með boltann á tánum næsta sumar. Það líkar honum vel.
Aron á sér háleit markmið og fyrst og fremst langar hann að vinna sér inn fast sæti í 21 árs liðinu. Það er stór stökkpallur og mikill sýningargluggi. Annars er stefnan alltaf sett á það að bæta sig milli ára. Aron vonast til að verða einn af burðarásum í Reynisliðinu þetta sumarið. „Ég þarf að stíga aðeins upp og verða lykilmaður í Reynisliðinu. Stjórna þessu aðeins þarna aftast,“ segir Aron.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Aukaæfingin skapar meistarann

Til þess að ná árangri telur Aron að leggja þurfi mikið á sig. Það gerir hann vissulega og æfir mikið aukalega. Hann þjálfar stökkkraftinn og sprengikraft og styrkir sig á veturna. Á sumrin æfir hann 8-9 sinnum í viku og m.a. æfir hann með Sævari Júlíussyni markmannsþjálfara Keflvíkinga nokkrum sinnum í viku. Síðustu tvö árin hefur Aron æft markvisst og segir hann það hafa skilað sér mjög miklu. „Ég á Sævari mikið að þakka. Hann á mikið í mér,“ segir Aron.

Aron er ekki mikið fyrir sjónvarpsmarkvörslur að eigin sögn en þar á hann við að hann sé ekki mikið í því að skutla sér að óþörfu. Hann treystir á að vera vel staðsettur og lesa leikinn vel. „Mér hefur verið líkt við Edwin van der Sar. Ekki að ég sé að segja það sjálfur,“ segir Aron og hlær.

Aron er fremur grannvaxinn og ekki ýkja hávaxinn. Það háir honum þó lítið. „Margir þjálfarar segja að ég þurfi að styrkja mig og byggja upp vöðvamassa þegar þeir byrja að þjálfa mig. Svo eftir að þeir sjá mig spila þá þagna þeir fljótlega og vilja ekki að maður sé að lyfta of mikið. Maður lætur bara vaða og reynir að láta finna fyrir sér í teignum. Mér fannst þetta mikilvægt fyrir nokkrum árum. Maður var töffari og dvaldi svolítið í lyftingasalnum. Það fjaraði svo út og maður fór að hugsa meira um fótboltann.“

Markverðir hafa oft haft stimpil á sér fyrir að vera léttklikkaðir en Aron er rólegur að eðlisfari að eigin sögn. „Ég er þó mjög mikill keppnismaður og ef það fýkur í mig, þá fýkur verulega í mig. Ég þoli ekki að tapa og get alveg látið menn heyra það.“

Spurður að því hvort hann finni nokkurn tímann fyrir pressu á knattspyrnuvellinum þá svarar Aron neitandi. „Þetta er auðvitað lítið samfélag í Sandgerði og maður fær alveg að heyra það ef maður stendur sig illa. Ég hef þó ekki fundið fyrir mikilli pressu utanfrá. Aðallega frá sjálfum mér,“ segir markmaðurinn efnilegi að lokum.

Viðtal og myndir/Eyþór Sæmundsson.