Samúel Kári orðinn góður af meiðslunum
- lék fyrsta deildarleik með Vålerenga síðustu helgi
Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson lék sinn fyrsta deildarleik fyrir aðallið Vålerenga í norsku efstu deildinni í knattspyrnu um síðustu helgi. Samúel Kári kom inná á 65. mínútu þegar Vålerenga gerði markalaust jafntefli við Brann í 15. umferð deildarinnar.
Samúel Kári gekk til liðs við Vålerenga frá Reading í fyrrasumar, en hann sleit krossband á einni af sínum fyrstu æfingum með Vålerenga. Samúel Kári fékk langþráðar mínútur með Vålerenga í leiknum. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Kristiansund.
Samúel Kári segist loksins vera orðinn 100% góður af meiðslunum og líði æðislega þessa dagana. „Mér leið vel i leiknum og það var dásamlegt að spila aftur eftir þessa fjarveru. Stemningin var mögnuð á leiknum enda sautján þúsund manns á áhorfendapöllunum. Völlurinn var mjög blautur og erfitt að spila fótbolta en við spiluðum vel.“
Samúel telur líklegt að þjálfarinn verði áfram með sama hópinn en að hugsanlegt sé að hann fái að spila fleiri mínútur. „Þetta er mikil vinna og það hjálpar ekkert að vera óþolinmóður þannig eina sem ég geri er að halda áfram að bæta mig og þá kemur tækifærið. Við erum í 5. - 6. sæti deildarinnar en það er stutt á milli liða í fyrstu sex sætunum. Það er mikið eftir af tímabilinu og við getum unnið okkur inn mörg stig sem er okkar markmið.”