Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 12. nóvember 2020 kl. 14:01
Sameinast Reynir og Víðir?
Þreifingar hafa átt sér stað milli félaganna Reynis og Víðis um mögulega sameiningu félaganna. Knattspyrnufélagið Víðir sendi formlega ósk þess efnis til knattspyrnudeildar Reynis á dögunum.
Frá sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis hafa margir talað fyrir kostum þess að sameinina félögin, sem bæði eru staðsett í Suðurnesjabæ, en fyrst núna virðast þær hugmyndir vera komnar á umræðustig.
Reynismenn svöruðu erindinu á þann veg að stjórn vildi fara sér hægt í svo stóru máli og höfnuðu því að sameina félögin fyrir komandi keppnistímabil. Reynismenn höfðu vistaskipti við Víði eftir síðasta tímabil, Reynir fór upp í aðra deild en Víðir féll í þá þriðju.
Stjórn Reynis lagði hins vegar til að sameina allt starf yngri flokka félaganna til að byrja með og skoða kosti og galla mögulegrar sameiningar.
Eftirfarandi tilkynning var birt á Facebook-síðu Knattspyrnudeildar Reynis:
Knattspyrnudeild Reynis fékk á dögunum formlega beiðni frá Knattspyrnufélaginu Víði um sameiningu félaganna. Málið var tekið fyrir á fundi stjórnar og var niðurstaðan sú að stjórn vill fara sér hægt í þessu stóra máli og útilokar sameiningu fyrir næsta tímabil.
Á fundi stjórnar í gær, miðvikudaginn 11. nóvember, samþykkti stjórn Ksd. Reynis að skoðaðir verði kostir og gallar sameiningar félaganna, án allra skuldbindinga, og hefur það verið tilkynnt stjórn Víðis.
Stjórn ksd. Reynis leggur hins vegar til aukið samstarf í yngri flokkum sem fælist í því að allt starf yngri flokkanna færi undir einn hatt, þ.e. sameiginlegt unglingaráð verði myndað og reksturinn verði sameinaður.
Stjórn ksd. Reynis vinnur nú hörðum höndum að því að ganga frá leikmannamálum fyrir baráttuna í 2. deild á komandi sumri og er allt útlit fyrir að leikmannakjarninn frá því á liðnu tímabili haldist óbreyttur að mestu.