Sameiginlegt átak í kvennaboltanum
Reynir Sandgerði, Víðir Garði og Grindavík hafa sameinað krafta sína í 2., 3. og 4. flokki kvenna fyrir átökin á komandi tímabili og munu leika undir nafninu GRV.
Elvar Grétarsson, þjálfari 3. flokks kvenna og yfirþjálfari yngri flokkanna, segir aðal ástæðuna vera stærri einingu og sterkari lið, „Stelpurnar í 3. flokki í Grindavík eru núverandi Íslandsmeistarar í innanhúsbolta og urðu Íslandsmeistarar í sjö manna bolta í fyrra og þurftu mannskap til að komast í 11 manna boltann og við erum með mannskap á móti.” Elvar segir stelpurnar æfa einu sinnu í viku saman í Reykjaneshöllinni en annars muni þær æfa á sitthvorum staðnum en muni svo spila saman, og þegar nær dregur sumrinu munu þær svo hittast oftar. Elvar vonast til þess að árangurinn í sumar verði til þess að fleiri stelpur komi að æfa. „Þetta var ekki spurning í mínum huga að setja þessi lið saman og við sjáum fram á að eftir svona þrjú ár verði orðinn öflugur meistaraflokkur þessara liða.”
Liðin munu vera með tvö 11 manna lið í þriðja flokki og verða svo með eitt 11 manna og eitt sjö manna í sumar, eitt 11 manna lið í 2. flokki og eitt sjö manna lið í 4. flokki, þar sem Reynir, Víðir og Grindavík eiga aðeins 14 stelpur í 4. flokki. Elvar segir stelpurnar vera mjög ánægðar með sameininguna og að þær ætli sér stóra hluti í sumar. Fyrsti leikur GRV verður í kvöld á Garðskaga þegar 3. flokkur félagsins tekur á móti HK.
VF-Mynd: 3.flokkur Grindavíkur í knattspyrnu Íslandsmeistarar innanhús fyrr á árinu.