Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sameiginleg upphitun stuðningsmanna Keflavíkur og FH
Föstudagur 8. júlí 2005 kl. 15:11

Sameiginleg upphitun stuðningsmanna Keflavíkur og FH

Stuðningsmenn FH hafa boðið Pumasveitinni, stuðningsmönnum Keflavíkur, að hita upp með sér fyrir leik FH og Keflavíkur í Landsbankadeildinni í kvöld.

Hópurinn mun hittast á Áttunni sem er á bak við Kentucky (KFC) í Hafnarfirði, spjalla um sportið og eiga góða stund saman, að því loknu munu stuðningssveitirnar ganga saman að Kaplakrika til þess að fylgjast með leiknum.

„Þetta er bara mjög spennandi og vonandi að fleiri klúbbar taki þetta upp eftir okkur,“ sagði Rúnar I. Hannah í samtali við Víkurfréttir í dag en hann er gallharður stuðningsmaður Keflavíkur. „Það hafa myndast ákveðin tengsl milli stuðningsmanna þessara tveggja liða og við stóðum t.d. að því í fyrra að fara sameiginlega og styðja við bakið á landsliðinu. Stemmningin er góð og mönnum líður eins og þeir séu á leið á bikarleik. Sá sem á kannski mestan heiðurinn af þessu er Bjarni Viðar, FH-ingur nr. 1, hann og Jói trommari í Keflavík þróuðu þessa hugmynd sín á milli,“ sagði Rúnar og átti bágt með að leyna spenningi sínum fyrir kvöldinu.

„Leikurinn fer 2-0, ég er í bjartsýniskasti og blað verður brotið í knattspyrnusögu sumarsins, Keflavík heldur hreinu og FH tapar. Gummi Steinars setur eitt mark og Jónas treður einum í netið,“ sagði Rúnar að lokum og við sjáum í kvöld hversu sannspár Rúnar mun reynast.

VF-mynd/ Pumasveitin fylgir Keflvíkingum hvert á land sem er.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024