Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sama sagan við Sunnubrautina
Fimmtudagur 8. desember 2011 kl. 21:09

Sama sagan við Sunnubrautina

Það var sama upp á teningnum í Toyota-Höllinni við Sunnubraut og síðast þegar Keflvíkingar fengu granna sína úr Njarðvík í heimsók. Keflvíkingar höfðu öruggan sigur, 92-72 þar sem Steven Gerard fór á kostum í liði Keflvíkinga og skoraði 30 stig. Leikurinn varð aldrei spennandi og hreint út sagt vonbrigði hve stemningin var lítil, bæði innan og utan vallar og stóð leikurinn aldrei undir nafni sem stórleikur.

Í upphafi leiks leit allt út fyrir að leikurinn gæti orðið spennandi þó svo að Njarðvíkingar væru alltaf skrefinu á eftir gestgjöfunum. Sóknarleikurinn var að vefjast fyrir Njarðvíkingum og eina sem virtist vera að virka var að koma boltanum á Cameron Echols, hann sá svo um að skjóta.

Vörnin var góð hjá Keflvíkingum og í sóknarleiknum lék Steven Gerard við hvurn sinn fingur og gekk í gegnum veika vörn Njarðvíkinga hvað eftir annað. Leikurinn var frekar daufur og stemningin ekki alveg til staðar.  Í hálfleik var staðan 46:35 heimamenn í vil og Njarðvíkingar enn með í leiknum.

Hálfleiksræða þeirra Einars og Friðriks, þjálfarateymis Njarðvíkinga, virðist hafa farið inn um eitt eyrað á leikmönnunum og út um hitt, því þeir virkuðu jafnvel enn andlausari en áður þegar síðari hálfleikur hófst. Keflvíkingar virtust bara vera í gönguferð í garðinum og þurftu þeir ekki að hafa mikið fyrir hlutunum. Munurinn fer svo upp í 20 stig í stöðunni 65-45 en þá er skammt eftir af þriðja leikhluta. Sá munur hélst svo nánast til loka leiks.

Ungt lið Njarðvíkinga náði aldrei að sýna það sem í þeim býr og ljóst að liðinu vantar andlegan leiðtoga. Echols var sá eini sem spilaði vel og Travis Holmes virtist hreinlega vera með hugann við eitthvað allt annað en körfubolta. Ungu strákarnir voru svo langt frá sínu besta og Elvar Friðriksson átti m.a. afar dapran leik en hann hefur oftar en ekki verið driffjöðurin í leik Njarðvíkinga í vetur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjá Keflavík var Steven Gerard eins og áður segir í aðalhlutverki og Njarðvíkingar áttu engin svör við leikstjórnandanum knáa.


Keflavík: Steven Gerard Dagustino 30/7 stoðsendingar, Jarryd Cole 26/10 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 11/6 fráköst, Charles Michael Parker 10/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Gerald Albertsson 9, Valur Orri Valsson 3/4 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 2, Sigurður Friðrik Gunnarsson 1, Andri Þór Skúlason 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.


Njarðvík: Cameron Echols 25/10 fráköst, Travis Holmes 16/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 13/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 9, Jens Valgeir Óskarsson 6, Styrmir Gauti Fjeldsted 2, Maciej Stanislav Baginski 1, Rúnar Ingi Erlingsson 0/5 stoðsendingar, Sigurður Dagur Sturluson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Hilmar Hafsteinsson 0, Elvar Már Friðriksson 0.


Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Einar Þór Skarphéðinsson