Sálfræði hjá Njarðvíkingum
- Segir Magnús Gunnarsson fyrirliði Keflvíkinga
Í kvöld fer fram leikur Keflvíkinga og Njarðvíkinga í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfubolta karla. Leiksins er beðið með mikilli eftirvæntingu eins og venja er þegar þessi lið eru annars vegar. Eins og fram hefur komið eru Njarðvíkingar að glíma við meiðsli og Marcus Van og Friðrik Stefánsson eru tæpir fyrir leikinn. Magnús Gunnarsson fyrirliði Keflvíkinga segist ekki vera að velta því mikið fyrir sér en hann býst við því að fimm Njarðvíkingar mæti á gólfið þegar boltanum verður fleygt upp í kvöld.
„Þetta er væntanlega bara sálfræði hjá Njarðvíkingunum,“ sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir. „Ef þeir ætla sér ekki að vera með í þessum slag þá eru þeir verulega meiddir. Það á eitthvað annað eftir að koma í ljós þegar nær dregur grunar mig,“ sagði skyttan mikla. Keflvíkingar eru í fínu formi samkvæmt Magnúsi en þeir eru með spánnýjan sigur undir belti, hann kom gegn ÍR í Breiðholtinu á föstudag. „Mér fannst sá leikur ekki eins æðislegur eins og af er látið. Það komu jú nokkrar troðslur og það hefur ekki sést í nokkurn tíma hjá okkur Keflvíkingum,“ en þar á Magnús við tilþrif frá Billy Baptist sem nýlega gekk til liðs við Keflvíkinga.
„Þessi nýji leikmaður er töffari með „attitude“, það er eitthvað sem mér hefur fundist vanta undanfarið hjá okkur. Nú er kominn annar svona leikmaður sem rífur kjaft eins og ég, gamli maðurinn.“
Síðast þegar erkifjendurnir mættust þá þurfti að framlengja leikinn og fór svo að Njarðvíkingar höfðu eins stigs sigur. Magnús segir að sá leikur sitji ekki í mönnum en engu að síður hafi verið hundfúlt að tapa gegn Njarðvíkingum á heimavelli í síðasta leik ársins 2012. Keflvíkingar ætla sér að fara vel yfir þann leik og laga nokkur atriði, þá ætti allt að smella saman að sögn Magnúsar. Hann bætir því við að nú sé það orðið svo að lið hræðist ekki jafnmikið að koma í Sláturhúsið eins og áður var, það sé eitthvað sem verði að breyta að hans mati.
Skyldumæting á leikinn
Körfuboltaáhugamenn flykkjast jafnan á þessa grannaslagi og Magnús vonar að svo verði í kvöld „Það er nauðsynlegt að byrja íþróttaárið með því að mæta á svona leik. „Þú vilt ekki vera einn af þeim sem hugsar „Af hverju var ég ekki á leiknum,“ þegar honum er lokið,“ segir Magnús en hann vill sjá sem flesta Keflvíkinga í stúkunni í kvöld.
Keflvíkingar eru ríkjandi bikarmeistarar og Magnús segir ekkert annað koma til greina en að verja titilinn. „Við stefnum á það að halda bikarnum og til þess erum við í þessu,við ætlum okkur því sigur í leiknum gegn Njarðvík,“ sagði Magnús að lokum en leikurinn hefst klukkan 19:15 í kvöld í íþróttahúsinu við Sunnubraut.