„Sakna Villabars“
- Elías Már leikur knattspyrnu í Svíþjóð:
Elías Már Ómarsson er uppalinn Keflvíkingur og leikur knattspyrnu með IFK Göteborg. Hann hefur leikið með landsliðinu í knattspyrnu og vonast til að fá fleiri tækifæri með því í framtíðinni. Leiktíðin í sænsku deildinni hefst þann 1. apríl næstkomandi og ætlar Elías sér að vinna sig inn í byrjunarliðið fyrir fyrsta leik.
„Bikarkeppnin er byrjuð hjá okkur og við höfum unnið alla leikina í henni hingað til, persónulega hefur mér gengið mjög vel á þessu undirbúningstímabili,“ segir Elías.
Hann kann vel við sig í Svíþjóð, býr á þægilegum stað í Gautaborg þar sem allt er mjög nálægt honum.
Elías hefur leikið með A-landsliði Íslands í knattspyrnu sem er draumur flestra ungra knattspyrnuiðkenda. „Það er alltaf góð tilfinning að spila fyrir landsliðið og mikill heiður. Ég vona bara að ég fái að spila oftar fyrir Íslands hönd í framtíðinni.“
Elías Már byrjar daginn snemma og er vaknaður rétt um áttaleytið. „Fljótlega eftir að ég vakna fer ég á æfingasvæðið þar sem að ég fæ mér morgunmat, æfingin sjálf byrjar svo um hálfellefu og eftir hana borða ég hádegismat, sem er líka á æfingasvæðinu. Ég er oftast kominn heim um eittleytið. Einu sinni til tvisvar í viku eru tvær æfingar sama daginn og þá er ég yfirleitt kominn heim um þrjú-hálffjögur. Eftir það hef ég tíma til að gera eitthvað annað.
Framundan er sænska deildin en nú er rétt um mánuður í hana og Elías vinnur að því að kappi núna að vinna sér fast sæti í byrjunarliðinu. Elías var spurður að því hvar hann sæi sig fyrir sér eftir fimm ár og því var auðsvarað. „Eftir fimm ár sé ég mig í stærri deild í Evrópu.“
Kærasta Elíasar og hann voru að koma á legg netverslun þar sem þau selja sínar eigin snyrtivörur undir merkinu E & T Cosmetics og er því óhætt að segja að atvinnumaðurinn sitji ekki auðum höndum í Svíþjóð.
Þegar Elías er spurður að því hvort hann sakni einhvers á Íslandi er því auðsvarað. „Maður saknar fjölskyldu og vina mest, en reyndar sakna ég Villabars og bakarísins líka.“