Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sagt eftir leiki kvöldsins
Föstudagur 16. mars 2007 kl. 23:36

Sagt eftir leiki kvöldsins

Njarðvíkingar lögðu Hamar/Selfoss 79-75 í Ljónagryfjunni í kvöld og tóku 1-0 forystu í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í körfuknattleik. Á sama tíma höfðu Grindvíkingar frækinn sigur á Skallagrím í Borgarnesi í framlengdum leik. Lokatölur í Borgarnesi voru 112-105 Grindavík í vil. Þetta höfðu menn að segja eftir leiki kvöldins:

 

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga

Það er óhætt að segja við vorum stálheppnir að ná sigri í kvöld. Þetta var ekki nógu gott hjá okkur og við vorum ekki að spila nægilega góða vörn né heldur góðan sóknarleik og vorum að nýta okkur það illa hvað Byrd hangir lengi inni í teig hjá Hamri/Selfoss og vorum eiginlega að flækja hlutina fyrir okkur. Fullt af hlutum sem við þurfum að laga og fyrir það fyrsta þurfum við að vinna betur saman sem lið.

 

Lárus Jónsson, leikmaður Hamars/Selfoss

Njarðvíkingar voru bara sterkari en við og við höfðum tækifæri til að klára leikinn en klúðruðum því. Ágætt að vera kominn í Njarðvík og hafa leikinn í hendi sér. Betra að við klúðrum leiknum sjálfir en að láta Njarðvík sjá um að vinna okkur á þeirra forsendum. Þetta var ekkert dómurunum að kenna, ef þeir voru lélegir þá voru þeir bara það og eiga þá bara betri dag á sunnudag og svo í oddaleiknum líka.

 

Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði Grindavíkur

Þetta er fín byrjun hjá okkur í kvöld en við lítum ekki á þetta sem vænlega stöðu. Við eigum eftir að vinna einn leik og það má lítið út af bregða því við töpuðum báðum leikjum gegn þeim í deildinni. Ef við töpum næsta leik þá er þetta ekki vænleg staða. Við þurfum að vinna einn leik í viðbót og þá getum við kannski farið að tala um vænlega stöðu. Það voru þónokkrir kjaftar sem fylgdu okkur hingað í Borgarnes og létu vel í sér heyra og við þökkum kærlega fyrir það. Það er uppleið í okkar leik og alveg þangað til að við verðum slegnir niður á jörðina en við skulum vona að það gerist ekki. Hjá okkur er ágætis meðbyr og menn að stíga upp. Útlitið er gott og hugur í mönnum.

 

Axel Kárason, leikmaður Skallagríms

Þetta var rosalegur leikur og hann hefur sjálfsagt verið mikið fyrir hið hlutlausa auga, ekki fyrir okkur Skallagrímsmenn. Þetta var skemmtilegur leikur og algjör hörkuleikur sem lenti því miður ekki okkar megin. Það er ekki spurning að við erum uppi við vegg þessa stundina. Það verður ekkert grín að fara í Grindavík og verðum bara að bíta frá okkur í þeim leik. Vörnin í fyrsta leikhluta var ekki nægilega góð hjá okkur í kvöld en við stefnum að því að gleðja okkar áhorfendur á sunnudag. Þýðir ekkert væl og við þurfum bara að snúa bökum saman og mæta í Grindavík til að vinna, við getum það alveg.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024