Sættir nást milli Keflavíkur og ÍA
Forystumenn Knattspyrnuliða Keflavíkur og ÍA segja í dag í yfirlýsingu á vef Knattspyrnusambands Íslands að sú óeining sem varð á milli félaganna í kjölfar marks Bjarna Guðjónssonar gegn Keflvíkingum fyrr á leiktíðinn sé úr sögunni.
Bæði félög munu leggja áherslu á að standa vörð um þau heilbrigðu gildi sem íslensk knattspyrna byggir á með heiðarlegum leik um leið og þau harma óviðeigandi viðbrögð og ummæli í kjölfar leiksins.
Knattspyrnusamband Íslands fagnar því að forystumenn ÍA og Keflavíkur hafa náð niðurstöðu vegna atviks sem átti sér stað í leik liðanna í Landsbankadeild 4. júlí sl. KSÍ harmar að markið umdeilda sem samræmist ekki heiðarlegum leik, hafi ráðið úrslitum í leiknum og fer fram á það við leikmenn Knattspyrnufélags ÍA að slíkt endurtaki sig ekki. Jafnframt hvetur KSÍ leikmenn, forystumenn og stuðningsmenn liða til þess að halda vöku sinni og standa vörð um heiðarlegan leik.
Niðurstaðan er sem sagt sú að leikurinn verður ekki spilaður að nýju eins kom til tals og því standa 2-1 úrslitin og Skagamenn halda stigunum þremur.
Hér á eftir fer yfirlýsing frá KSD Keflavíkur og ÍA um málið:
Málalyktir ÍA og Keflavíkur eru svohljóðandi:
Í heiðarlegum leik felst að keppendur komi fram af drenglyndi og sýni mótherjum virðingu. Sannur keppnisandi verður ávallt að grundvallast á heiðarlegum leik innan sem utan vallar. Seinna mark ÍA gegn Keflavík í Landsbankadeild karla 4. júlí sl. var ekki í samræmi við þau gildi sem heiðarlegur leikur grundvallast á. Þetta harmar Knattspyrnufélag ÍA og biðst afsökunar á því.
Bæði félög munu leggja áherslu á að standa vörð um þau heilbrigðu gildi sem íslensk knattspyrna byggir á með heiðarlegum leik um leið og þau harma óviðeigandi viðbrögð og ummæli í kjölfar leiksins.
Við forystumenn félaganna, Örn Gunnarsson varaformaður rekstrarfélags ÍA og Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, staðfestum að sú óeining sem varð á milli félaganna í kjölfar ofangreinds marks 4. júlí sé úr sögunni.
Reykjavík 17. júlí 2007
Rúnar Arnarson sign
Örn Gunnarsson sign
VF-mynd/ Frá leik Keflavíkur og ÍA á síðustu leiktíð.