Sá þrettándi í höfn og Keflavík í sögubækurnar
Áhorfendur fylltu Toyota-höllina í kvöld þegar Keflvíkingar urðu Íslandsmeistarar kvenna eftir nauman 91-90 sigur á KR í spennuþrungnum leik. KR-ingar áttu lokaskotið en ofan í vildi boltinn ekki og Keflvíkingar fögnuðu vel og innilega. Kesha Watson var stigahæst hjá Keflavík í kvöld með 36 stig en hún var einnig kjörin besti leikmaður úrslitakeppninnar að leik loknum. Hjá KR var Candace Futrell sem lét mest að sér kveða í sókninni en hún setti 38 stig.
Nýbakaðir Íslandsmeistarar Keflavíkur komust í sögubækurnar í kvöld þegar þær lönduðu Íslandsmeistaratitilinum. Komust þær upp að hlið KR yfir flesta sigra en bæði lið hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn 13 sinnum, KR vann sinn fyrsta titil árið 1961 en Keflavík 1988. Keflavík hélt áfram að marka spor sitt í körfuboltasöguna en þær tóku bæði einvígin 3-0 og er þetta í fyrsta skipti sem nokkurt lið fer í gegnum úrslitakeppnina án þess að tapa leik síðan keppnisfyrirkomulaginu var breytt. Ásamt þessu vann Keflavík alla heimaleiki sína í vetur og fara því í gegnum tímabilið með 100% árangur í Toyota-höllinni.
Leikurinn var frábær skemmtun og bauð upp á allt sem skiptir máli, spennu, tilþrif og síðast en ekki síst dramatík. Leikurinn var í járnum til að byrja með og liðin skiptust á körfum. Í stöðunni 20-19 fyrir heimastúlkur skoruðu KR-ingar 6 stig gegn 2 og leiddu eftir fyrsta leikhluta 22-25. Í öðrum leikhluta jók KR muninn og fór hann mestur í 12 stig 25-37en um miðjan leikhlutann skipti Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, yfir í svæðisvörn og eftir það átti KR fá svör í sókninni og Keflvíkingar gengu á lagið og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar kom að hálfleik var staðan 43-45 gestunum í vil.
Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og pressuðu stíft. KR-stúlkur glutruðu boltanum mörgum sinnum í upphafi hálfleiksins en vörn Keflvíkinga var frábær með Rannveigu Randversdóttur og Keshu Watson í broddi fylkingar. Keflavík náði nokkurra stiga forskoti en KR jafnaði 58-58 þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en Keflavík kláraði leiklutann sterkt og leiddi með 73-62 fyrir lokaleikhlutann.
KR byrjaði að saxa forskot Keflvíkinga um leið og leikhlutinn hófst og Jón Halldór upp á því að taka leikhlé eftir aðeins 23 sekúndur. Keflvíkingar komust á flug á ný og um miðbik leikhlutans var munurinn kominn í 8 stig 79-71. Næstu mínútur voru æsispennandi og Candace Futrell jafnaði leikinn með tveimur vítaskotum 87-87 þegar 51 sekúnda var eftir. Keflavík hélt í sókn og besti leikamaður vallarins Kesha Watson skoraði fyrir Keflavík 89-87. Rannveig Randversdóttir stal boltanum í næstu sókn og KR-ingar brutu á Keshu Watson þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum. Setti hún vítaskotin sín ofaní og munurinn kominn í fjögur stig 91-87. KR sækir fram völlinn og Guðrún Ámundadóttir setur þriggja-stiga körfu og munurinn 1 stig 91-90. Keflavík heldur í sókn en missir boltann þegar dæmd er sóknarvilla á Rannveigu Randversdóttur. KR fær innkast á miðju með tvær sekúndur eftir á klukku. Guðrún Þorsteinsdóttir fær boltann og reynir erfitt þriggja-stiga skot en geigar og Keflavík hafði eins stigs sigur.
Ingibjörg Vilbergsdóttir fyrirliði Keflavíkur var sigurreif í leikslok enda búin að fá silfurpeninga síðustu tímabil. ,,Loksins unnum við. Ég vissi að við myndum taka þetta,” sagði Ingibjörg en þrátt fyrir áföll á tímabilinu kom titillinn í hús. ,,Það er mikill karakter í liðinu og þegar einhver dettur út hjá okkur stígur annar upp. Það er mikil samheldni í liðinu,” sagði fyrirliðinn í leikslok.
Áhorfendur létu sig ekki vanta á leikinn og var metmæting í Toyota-höllina/Sláturhúsið og menn kunnugir staðháttum sögðust aldrei hafa séð eins marga á kvennaleik fyrr enda ekkert skrýtið þar sem þetta einvígi var spennandi. Keflavík hafði tvo af þremur sigrum með minnsta mögulega mun og í bæði skiptin átti KR lokaskotið.
Keflvíkingar eru að uppskera ríkulega í vetur eftir tvö mögur tímabil á undan. Þær spiluðu eins og meistarar í kvöld og börðust allan leikinn og gáfu ekki tommu eftir. Það sást á andlitum þeirra að þær vildu titilinn og eru vel að honum komnar.
Vf-myndir: Jón Björn Ólafsson – [email protected]