SÁ FYRSTI Í TÓLF ÁR
Keflvíkingar og Njarðvíkingar hafa att kappi í körfuknattleik í áratugi og alltaf hafa nágrannaslagirnir þótt leikja skemmtilegastir, jafnir og spennandi, sérstaklega í meistaraflokki karla.Meistaraflokkur kvenna í Keflavík hefur um árabil verið langsterkasta kvennalið landsins og tíðindi sigri þær ekki nema eitt mót á hverri vertíð. Njarðvíkingar hafa ekki náð líkum árangri í kvennaboltanum, oft barist í bökkum að ná nægilega stórum hóp saman til að senda lið til keppni í meistaraflokki og meistaratitlarlátið á sér standa. Fór svo að lokum að UMFN ákváð að hvíla kvennaboltann. Nú að lokinni tveggja ára útlegð hafa Njarðvíkingar á ný sent lið til keppni í efstu deild kvenna. Blóðtakan var átakanleg, einhverjar stúlkur hættu endanlega keppni og tvær fyrrv. Njarðvíkurstúlkur eru nú mikilvægir leikmenn keppinauta, Lovísa Guðmunds hjá Stúdínum og Harpa Magnúsdóttir hjá Keflavík. Liðið nú er því ungt að árum og reynslulítið en mjór er mikils vísir og hvert skref fram á við fagnaðarefni. Síðasta laugardag, í Keflavík, áttust þessi lið við í leik sem nú skal kalla innanbæjarslag og eftir mikla baráttu og allnokkrar sviptingar stóðu Njarðvíkingar uppi sem sigurvegarar 63-70, í fyrsta sinn síðan í febrúar 1986 þegar Njarðvík vann síðast leik gegn Keflavík sem þá var í fyrsta sinn að leika í 1. deild. Á þessum tólf árum hafa liðin 22 sinnum att kappi saman og Keflavík alltaf unnið. Leikurinn var ekki af háum gæðastuðli, Keflvíkingar heldur færst nær botninum en Njarðvíkingar toppnum. Spennan var þó til staðar og skemmtileg tilþrif á báða bóga. Ásdís Sigurðar (7), Mechelle Murray (26) og Rannveig Randvers (24) voru bestar gestanna. Muninn á liðunum má sjá í hittni utan af velli en þær Ásdís og Rannveig (5 þriggja stiga) misstu vart marks úr langskotum sínum á meðan hending var ef langskot rataði rétt leið hjá Keflvíkingum. Anna María Sveins (22) og Margrét Blöndal (18) léku best heimastúlkna en þó mátti sjá að ábyrgðin er að færast í hendur yngri leikmanna liðsins.