Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sá eini í heiminum? Hola í höggi og  níu pílna leikur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 23. júlí 2023 kl. 10:40

Sá eini í heiminum? Hola í höggi og níu pílna leikur

„Sólin getur skinið á hundsrass golfarans en ekki pílukastarans,“ segir Guðmundur Valur Sigurðsson.

Það er draumur hvers kylfings að fara „holu í höggi“. Draumur pílukastarans er að ná „níu pílna leik“ en fyrir þá sem þekkja ekki til pílukasts þá eru níu pílur lágmarkspílufjöldi til að komast úr 501 niður í 0. Þetta afrek hafði einungis einu sinni náðast í úrslitaleik HM en Michael Smith endurtók leikinn í síðasta móti í einum ef ekki þeim ótrúlegasta legg í sögu HM og var andstæðingur hans, Hollendingurinn Michael van Gerwen, einungis einni pílu frá því að ná afrekinu. Síðasta píla hans rétt missti tvöfaldan 12 og nafni hans Smith, fullkomnaði svo verkið og allt varð brjálað í „Ally pally“, Alexandra Palace í London þar sem heimsmeistaramótið fer ávallt fram.

Þó svo að afrekið hafi ekki náðst á stærsta sviðinu heldur á æfingu er samt magnað að ná þessu en Guðmundur Valur, sem býr í Grindavík, náði afrekinu fyrr í vetur og ekki nóg með það, heldur náði hann draumahögginu á Húsatóftavelli í Grindavík á dögunum. Blaðamanni er til efs að það séu margir ef nokkrir í heiminum sem hafa bæði náð að fara holu í höggi í golfi og níu pílna leik í pílukasti!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðmundur hefur alltaf verið mikill íþróttaálfur en hann ólst upp í Hafnarfirði. „Ég byrjaði ungur að æfa fót- og handbolta með Haukum og lék báðar íþróttir upp að tvítugu. Ég var miðjumaður í handbolta, nokkuð útsjónarsamur en skorti hæð til að geta náð virkilega langt en ég att kappi við kempur eins og Kristján Arason og Þorgils Óttar Matthiasen. Ég ákvað að einbeita mér að fótboltanum og átti nokkuð farsælan feril þar sem ég lék með Haukum, Njarðvík, Breiðablik, Þór Akureyri, gekk svo til liðs við FH árið 1989 og komst grátlega nærri því að verða Íslandsmeistari, við töpuðum í frægum lokaleik Íslandsmótsins og titillinn endaði hjá KA. Árið eftir spiluðum við til úrslita við Val í bikarnum og töpuðum eftir endurtekinn úrslitaleik. Ég gekk svo til liðs við uppeldisfélagið Hauka eftir þrjú ár hjá grönnunum, tók einhver tímabil með uppeldisfélaginu, var svo eiginlega hættur en gekk til liðs við Víði í Garði. Árið eftir réði ég mig sem spilandi þjálfara hjá Ægi í Þorlákshöfn, endaði svo ferilinn árið 1996 hjá FH, þá orðinn 35 ára gamall.“

Golf eftir fótboltaferilinn

Eins og svo margir knattspyrnumenn sem hefja golfiðkun eftir að fótboltaferlinum lýkur var Guðmundur fljótur að komast upp á lagið. „Ég flutti til Grindavíkur fljótlega eftir að fótboltaferlinum lauk, stofnaði fyrirtæki og byrjaði fljótlega í golfi. Ég varð fljótt heltekinn og stundaði golfið grimmt. Ekki eftir svo langan tíma var ég kominn niður í tólf í forgjöf en lægst náði ég niður í 7,6. Ég hef aldrei verið nálægt því að fara í holu í höggi og hef þurft að minnka golfið mikið undanfarin ár sökum vinnu en er byrjaður aftur af meiri krafti þar sem eldri sonur minn er byrjaður og er mjög efnilegur, það ýtir við mér að byrja aftur. Ég er með fimmtán í forgjöf í dag og hef sett stefnuna á að komast niður fyrir tíu, tel það raunhæft markmið. Auðvitað kom það mér skemmtilega á óvart að hafa náð draumahögginu um daginn, maður gerir einhvern veginn ekki ráð fyrir að ná þessu svo þetta var mjög ánægjulegt og ekki skemmdi fyrir að þetta gerðist í móti, ekki að það skipti öllu máli. Höggið var fallegt, ég hafði strax góða tilfinningu fyrir því, boltinn lenti meter frá holu og rúllaði beint ofan í,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Valur með kúluna góðu eftir að hafa farið holu í höggi. | Búinn að ljúka níu pílna leik.

Sólin skín ekki á hundsrass í pílukasti

Eins og áður kom fram, er ekki líklegt að það séu margir í heiminum ef nokkrir, sem hafa líka náð níu pílna leik í pílukasti. „Ég byrjaði að kasta pílu í vinnunni einhverjum árum eftir að ég byrjaði, var nú ansi langt á eftir hinum til að byrja með en þetta kom hægt og bítandi. Ég var sá eini frá Grindavík um tíma sem sótti stigamótin en eins og svo margir æfði maður sig mest heima í bílskúrnum. Ég komst upp á lagið og var kominn í landsliðið árið 2012 en svo missti ég dampinn en hef verið að koma upp aftur. Ég hef náð sumu af því sem þykir eftirsóknarvert í pílunni, t.d. að skjóta sig út með 170 en það er hæsta mögulega útskotið, ég hef náð tíu pílna leik en að ná svo níu pílna leiknum var auðvitað æðisleg tilfinning. Þó svo að þetta hafi verið á æfingu voru þónokkrir að horfa og rafmögnuð stemmning þegar sú níunda hitti í mark. Ég held í raun að það sé erfiðara að ná þessu á æfingu því í keppni kemst maður í ákveðið „zone“ og einbeitingin er ennþá betri, pumpan hefði held ég ekki farið neitt meira af stað. Eigum við samt ekki að setja takmarkið á að ná þessu líka í keppni, maður verður jú að hafa að einhverju að keppa.

Það er deginum ljósara að þetta er miklu meira afrek en að fara holu í höggi, það veit ég vel því nokkrir byrjendur í golfi í Grindavík hafa náð draumahögginu, menn með fulla 36 í forgjöf þegar það var hámarksforgjöfin. Nokkuð ljóst að sólin getur skinið skært á hundsrassinn í golfi en það er enginn sem kastar níu pílum og klárar legg, eingöngu út á heppni,“ sagði íþróttaálfurinn Guðmundur Valur að lokum.