Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Rýr uppskera í boltagreinum en aðrar greinar blómstra
Ástrós Brynjarsdóttir íþróttamaður Reykjanesbæjar síðustu tvö ár.
Sunnudagur 11. janúar 2015 kl. 14:10

Rýr uppskera í boltagreinum en aðrar greinar blómstra

Íþróttaannáll Víkurfrétta árið 2014

Það er óhætt að segja að Suðurnesjamenn séu afbragðs íþróttamenn upp til hópa. Mikill áhugi er á fjölbreyttum íþróttum á svæðinu og mikill metnaður lagður í að ná árangri. Á árinu sem var að líða unnust fjölmargir sigrar í hinum ýmsu greinum. Hinar svokölluðu stóru greinar, fótbolti og körfubolti, mega muna sinn fífil fegurri, en árangur var ekki til að hrópa húrra fyrir í boltagreinunum. Aðrar íþróttagreinar blómstruðu hins vegar. Það verður að teljast af hinu góða, að Suðurnesin séu ekki einungis þekkt fyrir körfubolta og fótbolta. Hér að neðan er stiklað á stóru á því markverðasta sem gerðist í íþróttum á Suðurnesjum á árinu 2014.

Taekwondo komið rækilega á kortið
Sá íþróttamaður sem líklega átti hvað bestu gengi að fagna á árinu er Ástrós Brynjarsdóttir, sem kjörin var íþróttamaður Reykjanesbæjar annað árið í röð, auk þess að vera valin taekwondokona ársins á Íslandi þriðja sinn í röð. Ástrós var sigursæl á árinu. Hún vann til 13 gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna og varð Norðurlandameistari í bardaga. Ástrós vann fimm Íslandsmeistaratitla, fimm bikarmeistaratitla, hún fékk þrisvar sinnum viðurkenningu sem keppandi mótsins og keppti á tveimur heimsmeistaramótum.
Taekwondo deild Keflvíkinga nældi sér í enn eina rósina í hnappagatið á árinu þegar liðið fagnaði sjötta Íslandsmeistaratitli í liðakeppni í röð í greininni. Keflavík sigraði einnig á Íslandsmótinu í taekwondo tækni. Keflvíkingar urðu svo einnig bikarmeistar á árinu en þeim titli hefur liðið haldið allt frá árinu 2007. Magnaður árangur.

Sóley Þrastardóttir var valin efnilegasta júdókona Íslands af Júdósambandi Íslands á árinu.
Júdódeild Sleipnis/UMFN vann 10 stóra titla á árinu. Þrír Íslandsmeistarar í júdó, þrír Íslandsmeistarar í Brasilian jiu jitsu, þrír Íslandsmeistarar í glímu og einn hálandameistari í keltneskum fangbrögðum. Birkir Freyr Guðbjartsson var valinn Júdómaður Reykjanesbæjar. Birkir varð Íslandsmeistari í U21-100 kg flokki. Hann vann til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu í -100 kg flokki. Hinn tæplega sjötugi Gunnar Örn Guðmundsson varð svo Njarðvíkurmeistari í júdó á árinu í opnum flokki. Algjör goðsögn þar á ferð.
Grindvíkingurinn Björn Lúkas Haraldsson varð Íslandsmeistari í júdó í -81 kg, U21 og einnig Íslandsmeistari í taekwondó tækni í fullorðinsflokki. Grindvíkingar áttu frábært á í júdóinu eins og svo oft áður.

Brons hjá Arnari Helga á EM
Keflvíkingurinn Arnar Helgi Lárusson vann bronsverðlaun í flokki T53 á Evrópumeistaramóti fatlaðra í hjólastólakappakstri í Sviss á árinu. Arnar kom fimmti í mark við erfiðar aðstæður, talsverða rigningu og mótvind, en þegar öll kurl voru komin til grafar höfðu tveir keppendur verið dæmdir úr leik fyrir línubrot.

Frábært ár hjá NES
Íþróttafélagið NES frá Suðurnesjum átti sjö keppendur á Evrópuleikum Special Olympics sem fram fóru í Antwerpen í Belgíu sumar. Það voru þau Ingibjörg Margeirsdóttir sem keppti í sundi, Ari Ægisson og Thelma Gunnlaugsdóttir sem kepptu í frjálsum íþróttum, Eðvarð Sigurjónsson sem keppti í boccia og Sigurður Guðmundsson, Ragnar Ólafsson og Halldór Finnson sem kepptu í knattspyrnu. Þeim gekk öllum vel og komust flestir á verðlaunapall.

Már Gunnarsson var Íþróttamaður fatlaðra í Reykjanesbæ árið 2014. Már varð fimmfaldur Íslandsmeistari í sundi fatlaðra og hefur sett tvö Íslandsmet á í sundi í flokki S12 á sínum stutta keppnisferli. Már tók þátt í alþjóðlegu sundmóti Í Svíþjóð í febrúar og vann til 5 gullverðlauna.

Stórveldi í sundinu
Sundfélag ÍRB vann til 45 verðlauna á Íslandsmeistaramóti í 25 metra laug á árinu. ÍRB varð bikar­meist­ari kvenna í sundi annað árið í röð. Í karlaflokki varð sveit Reykjanesbæjar í öðru sæti.
Samtals unnu sundmenn ÍRB 35 verðlaun á ÍM50 mótinu sem fram fór snemma árs. Liðið eignaðist fjóra Íslandsmeistara á mótinu. Sunneva Dögg Friðriksdóttir var með besta árangur ÍRB kvenna á mótinu og Kristófer Sigurðsson var með besta árangur ÍRB karla, en bæði áttu þau frábært ár. Þau Kristófer og Sunneva Dögg kepptu fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramóti í 25m laug í Doha, Quatar, seint á árinu. Kristófer vann til samtals 11 Íslandsmeistaratitla á árinu og var valinn sundmaður Reykjanesbæjar. Kristófer og félagar hans í landsliði Íslands settu tvö Íslandsmet, í 4x100m skriðsundi boðsundi á HM í Doha. Kristófer á gildandi Íslandsmet í sex greinum.

Einn bikar í körfuboltanum og goðsagnir sneru aftur
Í körfuboltanum hafa Suðurnesjaliðin oft gert betur en í ár. Eini titilinn sem kom í hús var bikartitill hjá karlaliði Grindavíkur. Þeir gulklæddu léku einnig til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn, en urðu þar að lúta í lægra haldi gegn KR. Í kvennaboltanum unnust engir titlar þetta árið og þykir það nokkuð fréttnæmt. Síðustu þrjú ár hafa Íslandsmeistara- og bikarmeistaratitlarnir dvalið á Suðurnesjum í kvennaboltanum. Það er þó óþarfi að örvænta þar sem yngri flokkarnir sáu um að sækja titlana heim þetta árið. Grindvíkingar, Njarðvíkingar og Keflvíkingar eignuðust öll fjölda Íslands- og bikarmeistara á árinu 2014 í yngri flokkum.

Það er varla hægt að minnast á körfuboltann án þess að fjalla um magnaðan árangur landsliðs karla sem vann sér inn þátttökurétt á lokakeppni Evrópumótsins. Þar áttu Suðurnesjamenn sína fulltrúa, en Logi Gunnarsson, Elvar Már Friðriksson og Ólafur Ólafsson leika með liðinu. Njarðvíkingurinn Logi skoraði flest stig leikmanna liðsins á árinu 2014, eða 77 stig alls í sex leikjum. Það gera 12,8 stig í leik en Logi skoraði einnig flestar þriggja stiga körfur liðsins. Logi lék sinn 100. landsleik á árinu.

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson lagði land undir fót og hreiðraði um sig í Brooklyn, þar sem hann leikur með LIU skólanum í háskólaboltanum. Elvar hefur þar náð að festa sig í sessi sem einn af lykilmönnum liðsins strax á fyrstu leiktíð. Eins hefur annar Njarðvíkingur verið að gera það gott erlendis, en hinn ungi Kristinn Pálsson hefur leikið frábærlega með unglingaliðinu Stella Azzura á Ítalíu.

Helgi Jónas hættir þjálfun
Eftir að hafa tekið við liði Keflvíkinga í Domino’s deild karla, þá neyddist Helgi Jónas Guðfinnsson til þess að hætta þjálfun sökum hjartsláttartruflana.

Teitur og Friðrik aftur í Ljónagryfjuna
Njarðvíkingar endurheimtu týnda syni aftur heim, en þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson sneru aftur í Ljónagryfjuna. Friðrik er þaulreyndur og sigursæll þjálfari sem hafði ekki þjálfað um árabil. Teitur hefur síðustu ár alið manninn í Garðabæ við góðan orðstír og m.a. stýrt Stjörnunni í tvígang inn í lokaúrslit og tvívegis gert liðið að bikarmeisturum.

Damon kom aftur heim - Gunnar byrjaði aftur
Damon Johnson sneri aftur í íslenska boltann eftir að hafa spilað síðast sem atvinnumaður árið 2010. Damon hefur staðið sig frábærlega það sem af er tímabili og sýnt gamalkunna takta. Keflvíkingar endurheimtu aðra gamla kempu, en bakvörðurinn Gunnar Einarsson tók fram skóna að nýju.

Fátt um fína drætti í fótboltanum
Það var fátt um fína drætti í fótboltanum á Suðurnesjum þetta árið. Keflvíkingar byrjuðu vel í Pepsi-deild karla, en halla fór undan fæti þegar leið á sumarið. Annað var uppi á teningnum í bikarnum, en þar fóru Keflvíkingar alla leið í úrslit. Þeir þurftu þó að sætta sig við grátlegt 2-1 tap gegn KR á Laugardalsvelli, eftir að hafa náð forystu snemma leiks. Keflvíkingar höfnuðu í 8. sæti Pepsi-deildarinnar eftir sigra í þremur síðustu umferðunum.

Í kvennaboltanum bar til tíðinda um mitt sumar þegar Keflvíkingar unnu sinn fyrsta deildarleik síðan í ágústmánuði árið 2012. Sigurinn dugðu þó skammt til en Keflvíkingar höfnuðu í neðsta sæti A-riðils 1. deildar. Þar gekk Grindvíkingum ívið betur og höfnuðu í þriðja sæti.

Grindvíkingar léku illa framan af sumri í 1. deild karla og á tímabili voru þeir hreinlega í fallbaráttu. Þeir höfnuðu í fimmta sæti þegar uppi var staðið. Í neðri deildum karla gekk hvorki né rak hjá Suðurnesjaliðunum. Þróttarar í Vogum áttu reyndar frábært sumar og voru hársbreidd frá því að komast upp í þriðju deild. Í 2. deild léku Njarðvíkingar og Reynismenn. Bæði lið áttu í basli allt frá upphafi sumars og voru iðulega á botninum. Örlög liðanna réðust ekki fyrr en í síðustu umferð, en það urðu Reynismenn sem þurftu að sætta sig við fall í 3. deild. Það munu þeir leika með grönnum sínum í Víði, sem höfnuðu í fjórða sæti deildarinnar í ár.

Það verður svo ekki hjá því komist að minnast á árangur Njarðvíkingsins Ingvars Jónssonar, sem valinn var besti leikmaður Íslandsmóts karla í fótboltanum. Ingvar, sem stóð á milli stangana í marki Stjörnumanna, átti frábært ár, en hann fagnaði Íslandsmeistaratitli með Garðbæingum, átti frábæra leiki í Evrópukeppni með liðinu, var valinn í landsliðið og nældi sér í atvinnumannasamning í Noregi.

Atvinnumennirnir okkar
Suðurnesin státa af fleiri atvinnumönnum í fótbolta en Ingvari, en þeir Arnór Ingvi Traustason og Samúel Kári Friðjónsson eru báðir að gera góða hluti í boltanum. Arnór lék sitt fyrsta tímabil með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni, á meðan Samúel Kári elur manninn í Reading á Englandi. Í lok árs bárust fréttir af því að Njarðvíkingurinn Óskar Örn Hauksson hygðist halda til Kanada frá KR, þar sem hann mun leika í næstefstu deild bandaríska boltans. Grindvíkingurinn Daníel Leó Grétarsson samdi við norska úrvalsdeildarliðið Aalesund, en hann átti frábært sumar og var m.a. kjörinn íþróttamaður Grindavíkur.

Hilmar yngstur í efstu deild
Hinn 15 ára gamli leikmaður Keflvíkinga, Hilmar Andrew McShane, varð í sumar yngstur leikmanna frá upphafi til þess að leika í efstu deild í knattspyrnu karla. Hilmar sem er fæddur árið 1999 sló þar með met Keflvíkingsins Sigurbergs Elissonar sem hafði staðið óhreyft frá árinu 2007.

Elías efnilegastur
Elías Már Ómarsson leikmaður Keflvíkinga í Pepsi-deildinni var verðlaunaður sem efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Elías lék 23 leiki með Keflvíkingum í sumar og skoraði 6 mörk en hann vakti verðskuldaða athygli fyrir beinskeittan leik sinn. Svo vel lék Elías að hann vann sér inn sæti í U21 liði Íslands og vakti um leið athygli erlendra liða.

Massað mót í Njarðvík
Njarðvíkingar héldu stærsta og glæsilegasta kraftlyftingamót sem haldið hefur verið á Íslandi á árinu, þegar Norðurlandamótið fór fram í sumar. Njarðvíkingurinn Sindri Freyr Arnarsson varð Kraftlyftingamaður Reykjanesbæjar 2014. Sindri Freyr vann samtals 4 Íslandsmeistaratitla á árinu og var bikarmeistari karla í kraftlyftingum 2014. Hann er einnig Norðurlandameistari í kraftlyftingum í -74kg flokki.

Sunneva fánaberi Íslands á Ólympíuleikum æskunnar
Sunneva Dögg Friðriksdóttir sundkona úr ÍRB var valin til þess að bera fána Íslands á opnunarhátíð Ólympíuleikum æskunnar sem fram fóru í Kína. Keflvíkingurinn Freyr Sverrisson, landsliðsþjálfari U15 karla í knattspyrnu, kom liðinu á Ólympíuleika æskunnar. Þangað tók hann með sér tvo leikmenn frá Keflavík, þá Sigurberg Bjarnason og Hilmar Andrew McShane.

Yfirburðir Suðurnesja í Skólahreysti
Heiðarskóli úr Reykjanesbæ bar sigur úr býtum í Skólahreysti árið 2014 eftir æsispennandi úrslitakeppni. Holtaskóli úr Reykjanesbæ tryggði sér annað sætið með góðum endaspretti en tólf bestu skólar landsins mættust í Laugardalshöll. Heiðarskóli endurheimti þar með titilinn sem skólinn vann árið 2010, en Holtaskóli vann keppnina síðustu þrjú ár.

Svanur akstursíþróttamaður Reykjanesbæjar
Svanur Vilhjálmsson varð Íslandsmeistari í True street flokki í kvartmílu og náði góðum árangri í öðrum keppnum. Hann var akstursíþróttamaður Reykjanesbæjar á árinu.

Karen stigameistari Golfsambands Íslands
Kylfingurinn Karen Guðnadóttir hjá GS, vann Eimskipsmótaröð Golfsambands Íslands í Meistaraflokki. Hún varð svo einnig stigameistari Golfsambands Íslands. Karen toppaði þar með góðan árangur frá því í fyrra.

Theodór varð Íslandsmeistari
Skotmaðurinn Theodór Kjartansson varð Íslandsmeistari í 300 metra riffil liggjandi og 2. sæti í liðakeppni á íslandsmótinu með 300 metra riffill liggjandi og náði mjög góðum árangri í fleiri mótum.

Jóhannar fékk Fjöðrina
Jóhanna Margrét Snorradóttir hjá hestamannafélaginu Mána, náði góðum árangri á öllum þeim mótum sem hún tók þátt í sl. ár. Hún náði 1. sæti í fjórgangi á Framhaldsskóla-, Reykjavíkurmeistara-, Íþróttamóti Mána og Suðurlandamóti. Hún náði 2. sæti í slaktaumatölti á Íslandsmóti og 2.-4 sæti í fjórgangi á sama móti. Á Íslandsmóti fékk Jóhanna Margrét Fjöðrina, sem eru sérstök verðlaun veitt þeim sem sýna mjög góða reiðmennsku og prúðmannlega framkomu.

Ragnheiður Sara sterk á alþjóðavettvangi
Njarðvíkingurinn Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði á sterku alþjóðlegu Crossfit móti sem haldið var á Ítalíu í lok árs. Sara átti góðu gengi að fagna á árinu en hún sigraði einnig á móti í Frakklandi í sumar ásamt því að hafna í 2.-3. sæti á Íslandsmótinu fyrir skömmu.

Góður árangur hjá fimleikakonum
Fimleikakonan Lilja Björk Ólafsdóttir náði mjög góðum árangri á árinu bæði hérlendis og erlendis. Hún varð Innanfélagsmeistari Fimleikadeildar Keflavíkur og Íslandsmeistari 14 ára og eldri í 1. þrepi. Þar sem hún sigraði á öllum áhöldum og í öðru sæti á Íslandsmóti unglinga í áhaldafimleikum. Lilja Björk keppti á Evrópumóti unglinga og Norðurlandamóti unglinga með landsliði Íslands og er í úrvalshópi fimleikasambands Íslands.
Ingunn Eva Júlíusdóttir úr Keflavík náði 1.sæti á þrepamóti í flokki 15 ára og eldri og er búin að vera í úrvalshóp Fimleikasambands Íslands. Hún náði mjög góðum árangri á árinu og er eini keppandi Fimleikadeildar Keflavíkur í alþjóðlegum reglum.