Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Rúnar Ingi til Blika
Laugardagur 9. júní 2007 kl. 10:55

Rúnar Ingi til Blika

Bakvörðurinn Rúnar Ingi Erlingsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Breiðablik sem leikur í 1. deild karla í körfuknattleik. Rúnar hefur allan sinn feril leikið með Njarðvík og hefur undanfarið verið að skipa sér sess í meistaraflokki félagsins.

 

Rúnar sagði í samtali við vf.is að það væru ýmsir þættir í hans leik sem hann vildi bæta og að Breiðablik væri það félagslið sem gæti skapað honum umhverfi til að ná markmiðum sínum. Rúnar er þar með þriðji Suðurnesjamaðurinn sem gengur í raðir Blika í sumar en þar hittir hann fyrir gamla þjálfarann sinn Einar Árna Jóhannsson og Keflvíkinginn Halldór Halldórsson sem báðir sömdu við Blika fyrir skemmstu.

 

„Það er náttúrulega rosalega erfitt að yfirgefa Ljónagryfjuna þar sem maður hefur alist upp og unnið marga titla með UMFN en í dag þarf ég að hugsa um hvað hentar mér best sem leikmanni og því miður sé ég ekki fram á að ég nái að bæta það sem ég þarf að bæta hjá UMFN á næsta tímabili,” sagði Rúnar.

 

Rúnar Ingi var leikstjórnandi í einum sigursælasta yngri flokki Íslandssögunnar, 1989 árganginum hjá Njarðvík sem allt frá 7. flokki höfðu algera yfirburði upp alla yngri flokkana. Rúnar á einnig fjölda landsleikja að baki með yngri landsliðum Íslands svo hér er á ferðinni mjög leikreyndur leikmaður þrátt fyrir ungan aldur.

 

Rúnar verður klárlega byrjunarliðsleikstjórnandi hjá Breiðablik í 1. deildinni í vetur og má vera að það hafi verið ein helsta ástæðan fyrir því að hann sé reiðubúinn til að yfirgefa Iceland Express deildina. Breiðablik hefur notað tímann vel að loknu síðasta tímabili og ætla sér augljóslega mikla hluti í 1. deildini á næstu leiktíð. Hvernig leggst annars 1. deildin í Rúnar?

 

„1.deildin leggst vel í mig, leikmenn, þjálfari og þeir sem koma að þessu hjá Breiðablik ætla sér upp í Úrvalsdeild á næsta tímabili og metnaðurinn hjá þeim er til staðar og vona ég að ég geti hjálpað Blikum til þess að ná þessu markmiði og hjálpa mér í leiðinni,” sagði Rúnar sem á næstu dögum mun skrifa undir eins árs samning við félagið.

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024