Rúmlega hundrað manns léku haustgolf í Leirulogni
Kylfingar og veðurguðir áttu góðan dag saman í Leirunni sl. laugardag en yfir hundrað manns mættu á haustmót Golfklúbbs Suðurnesja og Bílahótels sem gefur glæsileg verðlaun.
Veðurguðirnir voru í sínu besta skapi og buðu upp á Leirulogn í orðsins fyllstu merkingu því ekki bærðist hár á höfði og sólin sparaði ekki hausttöfra sína. Hólmsvöllur er enn í fínu formi og boltinn rúllaði vel á sumarflötum.
Haukur Armin Úlfarsson í GR lék frábært haustgolf og fékk 43 punkta og efsta sætið, 82 högg hjá kappanum sem fékk 17 í forgjöf á völlinn. Rúnar S. Guðjónsson úr GK varð annar með 41 punkt og síðan komu fjórir kylfingar með 40 punkta, Snorri Jónas Snorrason GVS, Aron Atli Sigurðsson GR, Gunnar Marel Einarsson GHG og Dagur Ebenezersson GK.
Hinn ungi Dagur Ebenezersson lék best í höggleik og endaði 18 holurnar á 3 undir pari. Dagur fékk fimm fugla og tvo skolla á hringnum. Gunnar Marel Einarsson GHG varð annar á 71 höggi og síðan komu heimamenn úr GS í næstu tveimur sætum, Björgvin Sigmundsson lék á einum yfir eða 73 höggum og Guðmundur R. Hallgrímsson var á 74 eða tveimur yfir.
Fleiri myndir úr haustblíðunni í Leirunni má sjá hér í myndasafni kylfings.is.
Já, þetta var veðrið í Leirunni á laugardaginn. Íslenski fáninn bærist ekki. VF-myndir/pket.